Tölvur eru stolt hvers fyrirtækis, næstum allra og varla fyrirfinnst tölvulaust heimili á Íslandi í dag. Tölvur eru einfaldlega alls staðar og gera allt fyrir alla.

Þó að tölvur séu stórkostleg tæki að flestra mati hefur tölvuframleiðslu geigvænlega neikvæð umhverfisáhrif. Bæði vegna þeirra náttúrauðlinda sem framleiðsla hráefnis í tölvurnar hefur í för með sér, flutnings efnis heimsálfa á milli og síðan framleiðsluferlið við gerð tölvunnar sjálfrar en það orsakar aðra röð af neikvæðum umhverfisáhrifum.

Sem dæmi má nefna að við framleiðslu 32 megabæta tölvukubbs þarf 72 kíló af kemískum efnum, 700 grömm af hreinum gastegundum, 32 kíló af vatni og 1,2 kíló af jarðefnaeldsneyti. Eiturefni úr tölvum geta síðan eftir líftíma þeirra lekið niður í jarðveg og grunnvatn, og ef fólk kemst í snertingu við þau, valda þau skaða á taugakerfi þeirra, innkirtlakerfi, líffærum og geta haft neikvæð áhrif á þroska heilans.

Ef við lítum aðeins á orkunotkun í kringum tölvur þegar þær eru komnar í hendur neytenda lítur dæmið þannig út. Um 9% af orku fyrirtækja fer í að halda tölvunum gangandi. Í Bandaríkjunum eru um 180 milljón tölvur í notkun í dag. Ef við yfirfærum þær tölur á Ísland lætur nærri að tæplega ein talva sé á hvert mannsbarn. Mig rennur grun að talan sé hærri hér á landi.

Orkunotkun:

Stór hluti eða um 30% af þeirri orku sem tölvur og fylgihlutir nota nýtist ekki í neitt annað en að hita frá sér, oft í óþökk og til ama. Til að minnka neikvæð áhrif af tölvunotkun er ýmislegt hægt að gera. Í fyrsta lagi er ónauðsynlegt að fjárfesta í tölvu sem ekki gerir neitt annað en sú sem fyrir er, s.s. „af hverju að kaupa nýja ef sú gamla nægir fyrir það sem maður þarf að gera“?

Varðandi val á tölvum liggur ljóst fyrir að annað hvort er fólk fyrir makka eða pésa og góð eða vond umhverfisstefna tölvurisanna hefur kannski ekki mikil áhrif þegar kemur til kaupákvarðana. Þar ræður mestu hvort að tækið uppfylli tæknilegar þarfir eða ímyndaðar þarfir kaupandans. Aftur á móti má vera að í náinni framtíð hafi umhverfisstefna framleiðanda og kapphlaup um bestu ímyndina á því sviði jafn mikil áhrif og bílaframleiðendur gera sér vonir um í dag.

Apple fylgir strangri umhverfisstefnu og hefur gert í langan tíma. Umhverfisstefna Apple tekur bæði til umhverfisáhrifa á meðan á framleiðsluferlinu stendur og eftir að tölvunni er hent. Í Bandaríkjunum eru notaðar tölvur teknar til endurvinnslu hjá Apple en ekki hér á landi. Ef að við neytendur förum fram á að fyrirtæki sýni ábyrgð gera þau það, ef ekki sleppa þau því. Það er því allt í höndum okkar neytendanna hvað fyrirtækin gera í umhverfismálum.

Nokkrir tölvuframleiðendur t.a.m. Fujitsu Siemens hafa umhverfismerkið Svaninn á framleiðslu sinni og tölvurnar eru framleiddar skv. ISO 14001 umhverfisstaðlinum. Tölvur með Svansmerkinu uppfylla strangar kröfur um magn þungmálma, samsetningu plastefna, framleiðsluferli, orkunotkun, möguleika á endurvinnslu o.fl.

Orkumerki segja til um hvort að tölva, prentari eða ljósritunarvél er orkusuga eða ekki. Evrópska orkumerkið , Energy Star eða GEEA label hjálpa okkur að finna sparneytnustu tækin.

Sjá meira um tölvur og umhverfið í skrifstofunni í Húsinu.

 

 

Birt:
3. mars 2013
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Tölvur og umhverfið“, Náttúran.is: 3. mars 2013 URL: http://nature.is/d/2007/08/14/tlvur-vi-og-umhverfi/ [Skoðað:20. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 14. ágúst 2007
breytt: 3. mars 2013

Skilaboð: