Hér ætla ég að opna umræðu um mál sem of lítið hefur verið rætt um.

Ég veit vel að umræðan er ekki vinsæl hjá öllum, en engu að síður má ekki bíða lengur með að ræða þetta brýna mál.
Í áraraðir höfum við sem ferðumst um landið haft áhyggjur af ört vaxandi landskemmdum vegna mikils akstur og álags á ótal svæðum sem mikið eru sótt af ferðamönnum. Önnur svæði sem ekki blasa við öllum en eru engu að síður fjölfarin hljóta ekki sömu umfjöllun en ástandið þar fer ört versnandi. Það á t.d. við um ýmsar gönguleiðir, bæði styttri sem lengri.

Laugaveginn hef ég gengið ótal oft, bæði á eigin vegum og sem fararstjóri fyrir Ferðafélagið. Fyrstu ferðina fór ég sumarið 1981 þegar fáir höfðu farið þar um og aðstaðan allt önnur en í dag og mína 18. ferð fór ég síðastliðna verslunarmannahelgi. Hafði þá ekki farið þar í 7 ár og sá víða mikinn mun til hins verra. Það er hálf dapurlegt að fara um viss svæði þar í dag, því farið er að sjá illa á landinu og brýn þörf er fyrir úrbótum víða á leiðinni ef ekki á verr að fara. Ómældum fjármunum hefur verið dælt í uppbyggingu skála og aðstöðu í kringum þá, á meðan leiðin sjálf hefur verið látin sitja algjörlega á hakanum og víða er skaðinn orðinn það mikill.

Ég ætla samt að byrja á að hrósa þeim „stígabótum“ sem unnar hafa verið á fyrsta hluta leiðarinnar í gegnum hraunið í Landmannalaugum og þá sérstaklega upp Brennisteinsöldu. Fór þar um síðast í fyrra og munurinn er mikill. Einnig eru hafnar smá úrbætur í Þórsmörk, en hafa ekki enn náð upp úr Langadal. Ég ætla því að vona að hér sé hafin löngu tímabær vinna, en ég kom ábendingum um slæmt ástand leiðarinnar sumarið 2004 við forráðamenn Ferðafélagsins en núna fyrst er eitthvað farið að gerast.

Höfum í huga að talið er að allt að 15.000 manns ganga leiðina á hverju ári. Slíkur fjöldi er kominn langt yfir það sem núverandi stígar þola.

Að mínu mati þyrfti jafnvel að loka leiðinni í 1-3 ár á meðan framkvæmdir færu fram á vissum köflum og þar með væri komið í veg fyrir að svæði til hliðar við núverandi stíga myndu troðast út á meðan. Það væri eflaust erfið ákvörðun fyrir ýmsa en eigum við ekki að halda okkur við þá hugsun að láta náttúruna njóta vafans?

Helstu staðir þar sem sér á Laugaveginum:

Nokkrir þeir staðir þar sem brýnna úrbóta er þörf eru taldir upp hér að neðan og eru myndir af flestum staðanna númeraðar til frekari skýringa:

  1. Jökultungur. Þar er leiðin brött, erfið í viðhaldi og þar hefur víða runnið mikið úr leiðum og orðið erfitt að fóta sig. Neðst er stígurinn allt að því hættulegur þar sem allt laust efni hefur runnið úr honum og því er fólk spólandi þar á lausum klöppum. Búast má við miklum skemmdum þar ef svo fer sem horfir auk slysahættu.
    Stígar eru of óljósir eftir að komið er yfir Grasahagakvísl. Mikið sporað þar og svæðið víða illa farið. Gera þarf eh. færanlega brú á ánna til að beina umferð í ákveðinn farveg.
  2. Stígar á milli Álftavatns og Hvanngils eru orðnir illa niðurgrafnir á löngum köflum. Hér er hætt við enn frekari skemmdum en orðið er þar sem fólk er hætt að ganga í stígunum og leiðin breikkar því hratt.
  3. Sama ástand er á stígum á milli Langhálsa og Slyppugils.
  4. Slyppugil og Bjórgil. Þar er mikið farið að renna úr grafast í kringum stíga. Ég sá mikinn mun á því svæði frá því að ég fór þar um síðast. Nánast eru þar komin „gil í gilin“ þar sem það er farið að renna verulega úr slóðinni.
  5. Flatirnar sunnan við Ljósá. Eftir að komið er yfir brúnna er gengið yfir ca 200m. mólendi áður en komið er að Kápu. Þarna eru orðnar djúpar rásir sem sífellt dýpka og aðrar farnar að myndast til hliðar. Hér er svæði sem ég tók eftir skemmdum á f. 7 árum og hefur versnað mikið síðan þá. Auk þess ljót rás er orðin þar sem á að heita stígur fyrstu kaflann upp á Kápu.
  6. Stígur frá hálsinum ofan við Húsadal. Þar leiðir skiptast og haldið er til vinstri til að fara í Langadal, tekur við stígur sem liggur upp hálsana þar. Víða í gróðurlendinu eru komnar djúpar rásir í stígana. Á einum stað var komin djúp hola í stíginn, sem eh. hefur reynt að velta grjóti ofan í . Hér þurfti að fara varlega yfir.

Þegar niður í Langadal var komið sá ég að þar eru stígabætur í hafnar og því ber auðvitað að fagna.

Við getum svo haldið áfram til suðurs og gert sér umfjöllun um leiðina upp úr Þórsmörk á Fimmvörðuháls þar sem ástandið er víða verra en á þeim stöðum sem ég hef nefnt hér að framan.

Eflaust má nefna ótal fleiri staði þar sem úrbóta er þörf. Ég veit líka að til stendur að lagfæra ýmislegt en þörfin fyrir stórframkvæmdir er mikil.

Ábyrgðin við að beina þetta miklum fjölda fólks á viðkvæmt svæði er mikil. Það er fyrst og fremst á herðum Ferðafélags Íslands að axla þá ábyrgð og þá helst að eigin frumkvæði áður en tekið verður fram fyrir hendur þess af öðrum aðilum. Ferðafélagið hefur unnið frábært starf á mörgum sviðum en er því miður ekki að standa sig þarna á þessu svæði sem án efa er þess helsta „mjólkurkú“ og er því næstum skylt að standa að þeim lagfæringum sem vina þarf. Á Laugaveginum nægir ekki að hafa aðeins góða skála og gistiaðstöðu. Leiðin sjálf þarf líka að vera í lagi.

Höfum samt í huga að gangandi ferðamenn eru þeir sem best fara með landið. Umræða um harða gönguskó og stafi sem gæta ýft upp gróður meðfram gönguleiðum tel ég fjarstæðukennda. Góðir skór eru nauðsyn í grófu landslagi og stafir auðvelda gönguna til muna. Í stað banna þarf að bæta stíga á fjölförnum leiðum. Við getum reynt að ímynda okkur hvernir leiðin liti út ef jafn mörg ökutæki færu þar um og þeir sem þar fara gangandi.

Birt:
19. febrúar 2013
Höfundur:
Árni Tryggvason
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Árni Tryggvason „Landskemmdir á Laugavegi“, Náttúran.is: 19. febrúar 2013 URL: http://nature.is/d/2013/02/19/landskemmdir-laugavegi/ [Skoðað:16. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 23. febrúar 2013

Skilaboð: