Greinarhöfundur Hildur Hákonardóttir. Ljósm. Guðrún Tryggvadóttir.Í lok vetrar hefst páskafastan samkvæmt gamla almanakinu. Hún stóð í sjö vikur frá sunnudeginum fyrir bolludag og til páska. Þessar vikur mátti ekki borða kjöt. Þó fastan hafi horfið úr lífi okkar með kaþólskunni er skynsamlegt að sleppa, þó ekki sé nema dagpart, einhverjum mat. Það má byrja smátt, til dæmis á kaffiföstu í einn dag. Taka einn dag í viku þar sem við neitum okkur um eitthvað sem við vitum að er óskynsamlegt að láta ofan í okkur hvort sem er. Sætindi, kökur, kaffi eða gos liggur beinast við. Ef það gengur vel má reyna að taka einn dag á léttu fæði, súpu eða vökva, og gera það síðan vikulega ef aðstæður leyfa. Hægt og varlega má þannig fikra sig áfram og skoða þetta hugtak – föstuna.

Að fasta er að takast á við sjálfan sig og við komumst fljótt að því hvað grunnt getur verið á sjálfsvorkunninni og hvernig sjálfsvorkunn og viljaþrek vega salt. Það var skáldið Mark Twain sem sagði: – Að hætta að reykja, það er enginn vandi. Ég hef gert það mörg þúsund sinnum.

Bolludagur, sprengikvöld og öskudagur eru kölluð föstuinngangur þó þau hafi þrengt sér inn á fyrstu vikuna. Saltkjöt og baunir eru orðin árleg matarhefð (það er þess virði að muna að þurrka hvannablöð til að krydda með baunasúpuna) en við höfum misst öskudaginn alveg yfir í glens og gotterí. Ef engin er fastan missir kátínan sem fylgir föstuinnganginum eiginlega marks. Þetta tvennt átti að upphefja hvort annað eins og salt og beiskt, sætt og súrt. Vorhreinsuninni var líka ætlað að losa okkur við eitthvað af sálardrunga vetrarins og gera yfirbót með sjálfshirtingu, líklega var það upphaflega meiningin með bolluvendinum og öskuburðinum eða öskuaustrinum. Þó yfirbótin sé aðeins táknræn, þá getur hún hreinsað hugann og létt á sálinni, alveg eins og fasta léttir á líkamanum og hjálpar okkur til að ganga til móts við vorið hress og glaðbeitt og byrja nýtt ár með sumardeginum fyrsta.

Úr Ætigarðinum - handbók grasnytjungsins, eftir Hildi Hákonardóttur.

Birt:
10. febrúar 2016
Tilvitnun:
Hildur Hákonardóttir „Fastan“, Náttúran.is: 10. febrúar 2016 URL: http://nature.is/d/2007/11/05/fastan/ [Skoðað:24. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 5. nóvember 2007
breytt: 10. febrúar 2016

Skilaboð: