Nú er svo komið að stjórnvöld verða að grípa inn í rekstur Landsnets og skipta þar um stjórnendur. Þetta fyrirtæki sem er í opinberri eigu hefur látið eins og fíll í postulínsbúð. Stjórnendur þess ryðjast áfram með villandi upplýsingum og án tillits til hagsmuna almennings og án eðlilegs samráðs í samfélaginu. Nokkur nýleg dæmi eru um þetta og nú síðast í gær tilkynnti fyrirtækið að það sæktist eftir að taka land eignarnámi til að geta lagt háspennulínur til Suðurnesja. Þessi lína er ætluð álveri sem alls óvíst er að muni rísa.

Nefna má fleiri dæmi um lélega stjórn á fyrirtækinu, t.d. nýlega hækkun verðskrár og rangar upplýsingar í matsáætlun um orkuþörf álvers í Helguvík. Neytendasamtökin mótmæltu umræddri hækkun verðskrárinnar og töldu hana ekki eiga stoð í lögum. Orkustofnun komst svo að þeirri niðurstöðu að ekki væri hægt að heimila umrædda hækkun. Það var svo umhverfisráðuneytið sem vakti athygli á því á sínum tíma að Landsnet hefði fullyrt ranglega í matsáætlun vegna umræddrar háspennulínu til Suðurnesja að aflþörf álvers í Helguvík væri 435 MW þegar hún var í raun 625 MW.

Í gær tilkynnti forstjóri Landsnets að fyrirtækið sæktist eftir heimild atvinnuvegaráðherra til að taka landsréttindi á línuleiðinni á Reyjanesi eignarnámi svo hefja mætti framkvæmdir við háspennulínuna. Í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu var málinu stillt þannig upp að um brýnt hagsmunamál íbúa og atvinnulífs á Reykjanesi væri að ræða: ,,Suðurnesjalína 2 er þannig nauðsynleg framkvæmd í almannaþágu og þolir ekki frekari bið, enda hvílir sú lagaskylda á Landsneti að tryggja öryggi og rekstur flutningskerfis raforku. Tvær háspennulínur í stað einnar munu auka verulega rekstraröryggi  raforkukerfis á svæðinu."

Það kann vissulega að vera rétt að það þurfi að auka rekstraröryggi raforkerfis á svæðinu, en það þarf ekki að gera með 220 kv línu. Slík lína er álverslína og ekkert annað. Þess vegna er það algjört frumhlaup af hálfu Landsnets að óska núna eftir eignarnámi á landi til að geta reist háspennulínu fyrir álver sem óvíst er að muni rísa. Ef Landsnet væri undir eðlilegri stjórn þá myndi fyrirtækið bíða með þetta mál þar til niðurstaða liggur fyrir um álversframkvæmdir í Helguvík. Ef það rís ekki þá dugar, og rúmlega það, að leggja 132 kv línu til Suðurnesja. Slík lína væri ódýarari en 220 kv lína og myndi auk þess komast auðveldlega í jörð, eins og dæmin sanna. Landsnet lagði t.d. 132 kv línu í jörð um 25 kílómetra leið frá Nesjavöllum í átt til Reykjavíkur árið 2009. Það er u.þ.b. sama vegalengd og frá Straumsvík til Njarðvíkur.

Hér er því um enn eitt alvarlegt frumhlaupið að ræða af hálfu Landsnets. Og enn einu sinni veitir fyrirtækið villandi upplýsingar um mikilvæg mál. Í ljósi þess verður stjórn fyrirtækisins, skipuð af iðnaðarráðherra (nú atvinnuvegaráðherra), að bregðast við og gera breytingar á yfirstjórn fyrirtækisins. Að öðrum kosti þarf ráðherra að víkja stjórninni frá. Landsnet, fyrirtæki í eigu almennings, verður að láta af núverandi stjórnunarstefnu yfirgangs og blekkinga.

Ljósmynd: Raflínur og álver, Árni Tryggvason.

Birt:
21. febrúar 2013
Tilvitnun:
Guðmundur Hörður Guðmundsson „Yfirgangur og blekkingar Landsnets“, Náttúran.is: 21. febrúar 2013 URL: http://nature.is/d/2013/02/21/yfirgangur-og-blekkingar-landsnets/ [Skoðað:23. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: