Alltaf er gaman að sá sínum eigin sumarblómum. Oftast borgar sig að sá og forrækta inni. Tegundum sem sáð er fyrst þ.e. í jan – feb. er m.a. stjúpa, brúðarauga og ljónsmunni en t.d. flauelisblóm, morgunfrú og skjaldflétta er sáð síðar að vorinu. Gott er að þvo vel úr heitu vatni þá bakka og potta sem nota skal við sáninguna, ef þau hafa verið notuð áður.

  • Sáðbakkar þurfa ekki að vera djúpir, nóg er að hafa ca. 6-7 cm lag af góðri sáðmold.
  • Annar möguleiki er að nota Sáðtöflurnar jiffy 7, sem er samanþjöppuð mold með neti utan um. Taflan þrútnar svo út í vatni, þá má sá í þennan myndarlega moldarköggul og færa hann svo í stærri pott.
  • Alltaf skal byrja á því að vökva moldina fyrir sáningu. Smærri fræ, á stærð við sykurkorn eða jafnvel minna þarf ekki að hylja með mold, t.d. lobeliu, ljónsmunna.
  • Talað er um að hylja stærri fræ með ca. þrefalda þykkt eigin stærðar.
  • Gott er að setja plastpoka sem opinn er í endann yfir bakkann eftir sáningu, en einnig er hægt að fá bakka með plastloki og hafa þá opið eða lokað eftir þörfum.
  • Ákjósanlegur spírunarhiti er oftast um 18-22°C.
  • Sáðbakkana skal hafa í góðri birtu, og er plastpokinn tekinn af þegar plantan er komin með ca. 4 laufblöð.
  • Þá er fljótlega hægt að fara að dreifplanta, setja plönturnar í lítinn pott með góðri gróðurmold. Misjafnt er hversu margar plöntur maður setur saman í hvern pott. Áfram skal hafa plönturnar í góðri birtu. Best er að reyna að setja þær út sem fyrst svo þær spíri ekki of mikið inni og verði renglulegar. Gott er þá að herða þær af og til með vorinu áður en þær fara út á endanlegan vaxtarstað.
Birt:
17. febrúar 2013
Höfundur:
Garðheimar
Uppruni:
Garðheimar
Tilvitnun:
Garðheimar „Sáning sumarblóma“, Náttúran.is: 17. febrúar 2013 URL: http://nature.is/d/2008/04/06/saning-sumarbloma/ [Skoðað:18. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 6. apríl 2008
breytt: 17. febrúar 2013

Skilaboð: