Yggdrasill logoÍ frétt á vef Auðar Capital kemur fram að Auður I fagfjárfestasjóður slf. og einkafjármagnssjóðurinn Arev NI slhf. hafi náð samkomulagi um kaup Auðar I á 100% hlut í félögunum Yggdrasil ehf og Veru líf ehf.  Félögin voru áður í eigu Arev NI einkafjármagnssjóðsins.

Yggdrasill
og Vera líf sinna heildsölu og smásöluverslun á  lífrænt ræktuðum og heilsusamlegum vörum.  Meðal þekktra vörumerkja sem Yggdrasill flytur inn eru Rapunzel, Dr. Hauschka snyrtivörur frá Þýskalandi, Clipper te- og kaffivörur frá Bretlandi, Holle barnamatur frá Sviss og nokkur vörumerki frá hollenska fyrirtækinu Natudis sem er eitt stærsta lífræna fyrirtækið í Hollandi og Belgíu.

Um er að ræða fimmtu fjárfestingu fagfjárfestasjóðsins Auðar I sem rekinn er af Auði Capital hf., en sjóðurinn festi nýlega kaup á öllu hlutafé í Tal hf.  Með kaupunum hyggst sjóðurinn styrkja stöðu fyrirtækja sinna á markaði fyrir heilsu- og lífrænt ræktaðar vörur, ná fram aukinni hagkvæmni í rekstri og styrkja grundvöllinn fyrir frekari sókn í framtíðinni en fyrir á Auður I einnig félögin Maður Lifandi og BioVörur.

Einkafjármagnssjóðurinn Arev NI er í eigu eignarhaldsfélagsins Arev ehf. og Sparisjóðabankans. Sjóðurinn hefur fjárfest í óskráðum vaxtarfyrirtækjum, aðallega á sviði heildsölu, smásölu og léttum iðnaði. Áhersla er lögð á að sjóðurinn sé leiðandi og mótandi fjárfestir sem tekur virkan þátt í rekstri og uppbyggingu fyrirtækja sinna. Arev verðbréfafyrirtæki hf. sinnir eignastýringu fyrir sjóðinn.

Arev verðbréfafyrirtæki hf. var ráðgjafi seljanda við söluna en fyrirtækjaráðgjöf Auðar Capital hf. ráðgjafi kaupanda.

Birt:
14. ágúst 2010
Höfundur:
Auður Capital
Tilvitnun:
Auður Capital „Auður Capital kaupir Yggdrasil“, Náttúran.is: 14. ágúst 2010 URL: http://nature.is/d/2010/08/14/audur-capital-kaupir-yggdrasil/ [Skoðað:19. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 8. janúar 2013

Skilaboð: