Sigurskúfur er af eyrarrósarætt, enda sami litur á blómunum. Hann er tiltölulega ný r landnemi og ekki feiminn við að leggja undir sig landsvæði. En af því ég hef lesið að hann sé hingað kominn til að gera mannkyninu gagn með því að stuðla að tengingu sálarinnar við hærri svið, fyrirgef ég honum margt. Hann hefur skriðular rætur sem vert er að reyna að nota steiktar eða í súpur. Ræturnar má grafa upp á vorin, en þó er algengara að gera það að haustinu, þegar þær hafa safnað í sig krafti. Í Svíþjóð voru blöðin þurrkuð og notuð í staðinn fyrir nýlendute.
Blómin eru ekki síður til þess fallin, að te sé af þeim gert. Það má einnig setja blóm sigurskúfs í kaldpressaða, góða ólífuolíu og láta standa þrjá daga. Sía svo blómin frá og setja olíuna á dökka flösku eða í dimman skáp, svo ljós komist ekki að. Daglega skal síðan setja dropa af olíunni á ennið milli augnanna og þá mun líkamshitinn leysa úr læðingi hina fíngerðu blómaorku, sem ólífuolían hefur fangað og geymt, og hún sameinast jarðbundnari orku mannsins. Gæta skal þess að hafa krukkuna á þægilegum stað því annars ferst þetta fyrir.

Skessujurt var uppnefnd maggí-súpujurtin, því fyrirtækið notaði hana sem kryddjurt í alla framleiðslu sína, enda er hún bæði stórvaxin og fljóttínd. Það lítur þó út fyrir að hér á landi muni hvönnin ná meiri vinsældum sem súpukrydd.

Úr Ætigarðinum - handbók grasnytjungsins, eftir Hildi Hákonardóttur. 

Ljósmynd: Skessujurt, Guðrún A. Tryggvadóttir.

Birt:
29. maí 2014
Tilvitnun:
Hildur Hákonardóttir „Sigurskúfur og skessujurt“, Náttúran.is: 29. maí 2014 URL: http://nature.is/d/2007/11/06/sigurskfur-og-skessujurt/ [Skoðað:20. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 6. nóvember 2007
breytt: 31. maí 2014

Skilaboð: