Svandís Svavarsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra afhenti veitingastaðnum Nauthól Svansmerkið á þriðjudag. Nauthóll er þar með fyrsta veitingahús landsins sem uppfyllir skilyrði norræna umhverfismerkisins, en áður hafa kaffihús Kaffitárs hlotið vottun.

Svansvottunin tekur m.a. til orkunotkunar, flokkunar rusls, gæða umhverfis og heilnæmi hráefnis. Starfsfólk Nauthóls hefur nú lært að flokka úrgang á fjóra vegu, nota sérstök Svansvottuð hreinsiefni, gæta að uppruna hráefnis og fylgjast með orkunotkun. Einnig má nefna að öskubakkar á sólpalli Nauthóls hafa verið fjarlægðir en reykingar eru ekki heimilar á útisvæðum Svansvottaðra veitingahúsa, sem tryggja eiga heilnæmt umhverfi fyrir alla gesti.

Áður hafa 21 aðrir framleiðslu- og þjónustuaðilar á Íslandi fengið Svansmerkið en mikil aukning hefur verið í vottunum undanfarin ár. Til samanburðar voru aðeins fjögur fyrirtæki með Svansvottun árið 2008.  Svanurinn vottar að varan eða þjónustan standist kröfur óháðra sérfræðinga og sé því ákjósanlegri fyrir umhverfi og heilsu en sambærilegar vörur og þjónusta sem eru á markaði.

Þess má geta að á morgun hlýtur Prentmet á Akranesi Svansvottun og verða íslensk fyrirtæki með Svansvottun þá orðin 23 talsins.

Sjá þau fyrirtæki sem hafa Svansvottun hér á landi á Grænum síðum.

Sjá þá vöruflokka sem eru í boði af Svansvottuðum vörum hér á landi undir „Vörur/Vottað Svanurinn“ en í hverjum flokki finnur þú hvaða fyrirtæki flytja inn/dreifa viðkomandi vöruflokki og hvað vörurnar heita. Sé varan til nákvæmlega skráð til sölu eða kynningar er hana að finna í Svansbúðinni hér á Náttúrumarkaði. Samsvarandi flokkur er fyrir þjónustuflokkana undir „Þjónusta/Vottað Svanurinn“ hér á Grænum síðum.

Ljósmynd: Svandís Svavarsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra afhendir Guðríði Maríu Jóhannesdóttur, framkvæmdastjóra Nauthóls Svansmerkið, Umhverfis- og auðlindaráðuneytið.

Birt:
15. nóvember 2012
Tilvitnun:
Umhverfis- og auðlindaráðuneytið „Nauthóll fær Svansvottun“, Náttúran.is: 15. nóvember 2012 URL: http://nature.is/d/2012/11/15/nautholl-faer-svansvottun/ [Skoðað:25. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: