Hún er 11. nóvember og kennd við Martein biskup í Tours í Frakklandi, sem á að hafa dáið í kringum árið 1400. Hann var samkvæmt helgisögninni svo velsinnaður maður, að eitt sinn er hann sem ungur hermaður hitti fyrir nakinn beiningamann, sem var að krókna úr kulda, sneið hann yfirhöfn sína í tvennt og gaf vesalingnum helminginn. Næstu nótt birtist Jesús Kristur Marteini í draumi klæddur í kápuslitur beiningamannsins, sem hann kvaðst hafa fengið hjá Marteini.

Eftir þessa vitrun lét Marteinn af hermennsku, tók kristna trú og gerðist klerkur. Varð hann brátt svo nafnfrægur, að fast var lagt að honum að taka við biskupsdómi, en hann færðist lengi undan fyrir lítillætis sakir.

Yngri gerð helgisagnarinnar lætur Martein hafa flúið upphefðina og falið sig í gæsakofa. En gæsirnar fældust við og komu upp um felustað hans með fjaðraþyt og gargi. Neyddist hann þá til að taka við kaleik biskupstignarinnar. Sagan segir síðan, að Marteinn hafi drepið allar gæsirnar í hefndarskyni. Af því að sá siður að vera sprottin, sem nokkuð er útbreiddur var á Norðurlöndum og Þýskalandi á síðari öldum, að slátra gæsum og eta á Marteinsmessu. Er hér komið enn eitt dæmi þess, hvernig kristilegar helgisagnir eru hagnýttar til að gleðja holdið.

Ekki er kunnugt um slíka venju hér á landi, enda þess vart að vænta, þar eða gæsarækt, sem talsverð var á þjóðveldisöld, mun hafa verið að mestu niðurlögð, þegar þessi grátbroslega saga komst á kreik. En allmikil helgi var á Marteini dýrlingi. Þrjár sögur eru til af honum á íslensku og ekki færri en fimm kirkjur voru honum helgaðar. Íslenskt altarisklæði með myndum úr hans fróma lífi var til að Grenjaðarstað, líklega frá 14. öld. Það var keypt héðan og flutt til Frakklands árið 1836 og er geymt í Cluny-safninu í París.

Um siði tengda Marteinsmessu er varla kunnugt hérlendis, nema hvað algengt var að miða við þann dag, hvenær taka skyldi hrúta á gjöf eða öllu heldur fjarlægja þá frá ánum, so að þær yrðu ekki lembdar fyrr en hæfilegt þótti. En upp úr miðjum nóvember má búast við því, að ein og ein ær verði blæsma, þótt það heyri fremur til undantekninga svo snemma. Aðrir dagar eru og tilnefndir í þessu skyni. Í þjóðveldislögunum er miðað við veturnætur og eru umþað allströng ákvæði. Eggert Ólafsson hefur sömu sögu að segja frá miðri 18. öld. Stundum er þó miðað við allraheilagramessu eða fyllingu fyrsta vetrartungls, og er það sjálfsagt upphaflegast.

Í núgildandi búfjárræktarlögum er miðað við 5. Nóvember.
Reyndar eru þessird dagar ekki einungis valdir vegna hættu á ofbráðu lambfangi, því að oft var saumað fyrir hrúta leppur eða speldi til að varna við slíku. En þeir eru óhraustari en ærnar og voru taldir leggja of mikið af, væru þeir hafðir lengur úti, og mjög brýnt var, að þeir væru vel í stakk búnir, þegar að því kom, að þeir skyldu gegna sinni frumskyldu.
Allt um það hefur kveðið svo mikið að því, að miðað væri við 11. nóvemer, að Halldór Vilhjálmsson skólastjóri á Hvanneyri sá ástæðu til að veitast að þessari bábilju á prenti og taldi nær að miða við veðurfar en heilagan Martein. Og maður fæddur rétt fyrir aldamót í Hnappadalssýslu kveðst aldrei hafa heyrt talað um annan dag, enda hafi sá dagur allt eins oft verið kallaður hrútamessa einsog Marteinsmessa. Er hér annað dæmi þess, hvernig kristilegur helgidagur er í hagræingarskyni notaður til mjög svo veraldlegrar ráðstöfunar.

Birt:
11. nóvember 2013
Höfundur:
Árni Björnsson
Tilvitnun:
Árni Björnsson „Marteinsmessa“, Náttúran.is: 11. nóvember 2013 URL: http://nature.is/d/2007/04/11/marteinsmessa/ [Skoðað:28. mars 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 11. apríl 2007
breytt: 1. janúar 2013

Skilaboð: