Það sem skiptir mestu máli, miklu meira máli en að lesa ótal greinar um góð og græn ráð, er að breyta eigin hugsunarhætti. Nota græna heilahvelið, ef svo má að orði komast. Ef þú finnur ekki fyrir græna heilahvelinu í dag gætir þú þurft að þjálfa það aðeins upp. Þú getur byrjað að skoða hvað líf einnar manneskju, þín, þýðir fyrir jörðina okkar.

  1. Ímyndaðu þér hve stórt fjall þú hefur skilið eftir þig af dóti og sorpi það sem af er ævinni. Í framhaldi af því getur þú skoðað hvursu mikið af þessu rusli þú þurftir virkilega á að halda?
  2. Hugsaðu um hvaðan maturinn þinn kemur og hvað framleiðsla hans skilur eftir sig út um allan heim (innihald og umbúðir).
  3. Reyndu að reikna út það magn af húsgögnum og alls kyns innanstokksmunum sem þú hefur keypt og hent um ævina.
  4. Skoðaðu hvort að þú sért virkilega að nota dagana þína í samræmi við það hve lífið er stutt. Ertu t.d. að keyra fram og til baka um daginn bara til að kaupa einhvern óþarfa eða ertu að eyða tíma með sjálfum þér eða þínum nánustu?

Um leið og þú byrjar að hugsa með græna heilahvelinu getur þú stuðlað að því að auðlindir jarðar varðveitist örlítið lengur. Ef svo allir hinir gera það sama þá erum við búin að breyta svo miklu að líf afkomenda okkar á þessari jörð verður mögulegt. Annars er það það nefnilega ekki.

Grafík: Hugsað örlítið grænt, Guðrún A. Tryggvadóttir og Signý Kolbeinsdóttir.

 

Birt:
25. janúar 2015
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Að breyta um hugsunarhátt“, Náttúran.is: 25. janúar 2015 URL: http://nature.is/d/2011/10/03/ad-breyta-um-hugsunarhatt/ [Skoðað:20. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 3. október 2011
breytt: 25. janúar 2015

Skilaboð: