Páll Ásgeir Ásgeirsson rithöfundur, leiðsögumaður, blaðamaður og náttúrubarn flutti eftirfarandi erindi á hátíðahöldum dags íslenskrar náttúru í Árbæjarsafni þ. 16. sept. 2012:

Kæra afmælisbarn, Ómar Ragnarsson, háttvirtur umhverfisráðherra og góðir gestir.

Að ætla sér að tala um náttúruvernd á þessum stað við þetta tækifæri og yfir hausamótum þeirra sem hér eru viðstaddir er svolítið eins og að boða bindindi á ársfundi góðtemplara.

Við sem unnum íslenskri náttúru þurfum samt að minna okkur á það á hverjum degi að við búum við mikil forréttindi borið saman við aðra íbúa jarðarinnar. Við búum dreift í stóru landi og hver einasti Íslendingur hefur innan seilingar við heimili sitt nánast ósnortna náttúru.

Ennþá.

Við getum gengið um víðáttur Mosfellsheiðarinnar, reikað um skóga Heiðmerkur eða gengið á Esjuna, Löðmund, Háskerðing eða Snók.

Á öllum þessum stöðum getur þurft að horfa vandlega eftir ummerkjum eftir manninn og allt hans brölt á yfirborði plánetunnar. Fáein skref frá hylkinu úr gleri og stáli og við stöndum í sömu sporum og forfeður okkar, berskjölduð á víðavangi og líf okkar allt á valdi náttúruaflanna.

Í návist þess sem er okkur svo miklu stærra finnum við mjög auðveldlega hvernig náttúran er hið sanna heimkynni okkar. Þar verðum við aftur að því dýri sem við raunverulega erum. Þar vakna skilningarvit sem ekki er þörf fyrir í manngerðu landslagi steinsteypu og malbiks.

Hvort sem vindurinn rífur í hárið og rigningin rekur manni kinnhest eða sólin kyssir votan vanga þá finnum við öll að úti í náttúrunni verður maður heill á ný. Mannskepnan þróaðist ekki til þess að eyða ævinni innan steypta veggja í trylltri leit, á hlaupum til svokallaðra metorða með annað augað á klukkunni. Það umhverfi sem við höfum búið okkur síðustu árhundruð er ekki hollt fyrir okkur og það er aðeins í ríki náttúrunnar sem við finnum tómleikann hverfa og við verðum heil á ný.  Íslensk náttúra er öflugri en öll meðferðarúrræði vorra daga samanlögð. Hún er líkami þjóðarinnar, móðir okkar allra, fósturjörð og frumkraftur.

Að þessu sögðu mætti ætla að um náttúruvernd ríkti þjóðarsátt á Íslandi og víðtæk samstaða um að vernda okkar öldnu fóstru sem á brjóstum borið og blessað hefir oss.

Svo er ekki.

Árið 1970 skrifaði Halldór Laxness fræga grein sem heitir Hernaðurinn gegn landinu. Þar birtist beisk ádeila á meðferð Íslendinga á náttúru landsins, hugsunarlausa framræslu og stjórnlausa græðgi sem réði ferð við uppbyggingu virkjana á Íslandi.
Nú eru 110 ár frá fæðingu spámannsins sem þar minnti okkur á nauðsyn náttúruverndar en maðurinn sem með skrifum sínum og hugmyndum varð kveikjan að grein Halldórs er enn að skrifa í blöðin og fylgismönnum  við sjónarmið hans virðist lítið hafa fækkað.

Hugmyndin um að náttúran sé eitthvað sem maðurinn hefur leyfi ef ekki beinlínis skyldur til þess að nýta og megi beita þeim meðulum og aðferðum sem tiltækar eru hverju sinni er nefnilega langt frá því horfin úr íslenskum hugarheimi.

Á hverjum degi er talað um að fallvötnin renni óbeisluð til sjávar engum til gangs og það sé í besta falli bláeyg sveitamennska og vanþekking að virkja ekki það sem virkjanlegt er.

Við erum látlaust barin í höfuðið með áhöldum sem heita: nýtanleg fallorka á Íslandi, sæstrengur til orkuútflutnings eða skynsamleg nýting náttúruauðlinda. Helsta brjóstvörn virkjunarsinna og framkvæmdamanna, málaliði hinna duglegu er Landsvirkjun risavaxið fyrirtæki í opinberri eigu sem beitir, sálarlausum hagkvæmnisrökum, áróðri, mútum, falsar skýrslur og kúgar vísindamenn til hlýðni allt eftir því hvað hentar hverju sinni.

Stjórnmálamenn tala helst um náttúruvernd þegar þeir á tyllidögum vilja tala upp í eyrun á kjósendum sínum. Þá getur hentað að bregða yfir sig grænni skikkju sem borin er þó á báðum öxlum og gott að vitna í þjóðskáldin og segja á víxl Fjalladrottning móðir mín eða Land, þjóð og tunga þrenning sönn og ein... En þegar talið er upp úr kössunum er þjóðin gufuð upp nema fáeinir lögfræðingar og óhætt að hengja skikkjuna grænu aftur inn í skáp.

Það er barist um Ísland.

Orustan stendur milli þeirra sem vilja fórna hratt minnkandi auðlind óspilltrar náttúru á heimsvísu fyrir stundargróða heima í héraði og hinna sem hafa áttað sig á því að okkur ber að varðveita Ísland og náttúru þess fyrir komandi kynslóðir.  Ef allir jarðarbúar hegðuðu sér eins og Íslendingar þyrfti jörðin og auðlindir hennar að vera margfalt stærri en raun ber vitni. Þannig erum við í rauninni þátttakendur í alþjóðlegu neyslufylliríi sem er í boði komandi kynslóða.

Svokölluð rannsóknarleyfi hlaðast upp á skrifborðum embættismanna og er stefnt gegn náttúruperlum í öllum landsfjórðungum. Orkuveita Reykjavíkur vill fá leyfi til að virkja Aldeyjarfoss. Bændur undir Eyjafjöllum reka fé á örfoka afrétti þvert á ráðgjöf færustu vísindamanna og samtök vélamanna á fjöllum berjast gegn stofnun þjóðgarða og tímabæru skipulagi í stað stjórnleysis á hálendinu. Heimamenn í Þingeyjarsýslum reistu kísiliðju á bökkum Mývatns og boruðu Þeistareyki í tætlur. Undir flaggi byggðastefnu var hálendi Austfjarða lagt í rúst, Hafrahvammagljúfur eyðilögð, fossar Jökulsár í Fljótsdal þurrkaðir upp, heitum uppsprettum og einstæðum náttúruperlum og dýralífi drekkt fyrir stundarhagsmuni.

Reykvíkingar og nærsveitamenn-stór hluti þjóðarinnar tekur nauðug viljug þátt í stærstu lýðheilsutilraun allra tíma um langtímaáhrif brennisteinsmengunar á heilsu almennings. Austanáttin ber látlaust yfir okkur eitur frá Hellisheiðarvirkjun og borholum á heiðum uppi.  Og mennirnir með borana bíða óþreyjufullir eftir leyfunum til að bora meira og dýpra hvað sem líður rannsóknum sem sýna að háhitavirkjanir geta valdið tjóni á heilsu þeirra sem búa í nágrenninu.

Þessum hernaði gegn landinu verður að linna. Ekkert verð á kílówattstund er nógu hátt til þess að við megum spila lottó með lýðheilsu þjóðarinnar né heldur selja það sem við eigum ekki heldur deilum með öllum heiminum og hans ófæddu börnum. Eina úrræðið sem getur talist rétt og siðlegt er að lifnaðarhættir okkar verði sjálfbærir og spilli ekki náttúru heimsins meira en orðið er. Það er okkar hlutverk að beygja af þeirri leið útrýmingar og arðráns sem mannkynið er nú statt á og þótt við lifum það líklega ekki að sjá marktækar breytingar þá getum við ekki setið hjá vegna þess að við eigum von um arð af orkusölu um sæstreng til útlanda eða þægilega innivinnu hjá Landsvirkjun.

Náttúruverndarmenn eru fáir og smáir og raddir þeirra dreifðar. Þeir mega sín lítils gegn lymskubrögðum stórfyrirtækja sem sækja fram á mörgum vígstöðvum og bjóða sínar svikasættir, lausn á stundarvanda, ómótstæðilegt tilboð í fjöregg eða foss. Við þurfum að hrópa hærra, víðar og oftar á þá hjálp sem náttúran þarfnast.

Þegar seinasti fossinn á Íslandi hefur verið virkjaður, síðasta hverasvæðið eyðilagt og háspennumöstrin varða sjóndeildarhring okkar hvar sem við komum verður ekki spurt: hver gerði þetta heldur hvað gerðir þú til þess að koma í veg fyrir þetta.

Ljósmyndir: Frá hátíðahöldunum í lundi í Árbæjarsafni í gær. Efst; ræðumaðurinn Páll Ásgeir Ásgeirsson, neðri myndir; hópurinn við hátíðahöldin. Ljósm. Einar Bergmyndur.

Birt:
17. september 2012
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Páll Ásgeir Ásgeirsson „Hvað gerðir þú?“, Náttúran.is: 17. september 2012 URL: http://nature.is/d/2012/09/17/hvad-gerdir-thu/ [Skoðað:20. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: