Grasagarður Reykjavíkur heldur upp á Dag íslenskrar náttúru sunnudaginn 16. september með því að standa fyriir Náttúruratleik og rathlaupi sem hefst kl. 13:00 og stendur til kl. 14:30

Í ratleiknum verður lögð áhersla á umhverfisupplifun. Hvað sjáum við, heyrum og finnum í umhverfi okkar og náttúrunni þegar vel er að gáð?

Félagar í Rathlaupsfélaginu Heklu munu einnig kynna rathlaup fyrir gestum. Rathlaup er skemmtileg íþrótt fyrir alla aldurshópa sem stunduð er á opnum svæðum, innan borgarmarka og utan, í sátt við umhverfið og náttúruna. Þátttakendur fá kort af hlaupasvæðinu og hlaupa með aðstoð þess á milli stöðva sem merktar eru á kortið.

Tvær leiðir verða í boði. Önnur hentar vel fjölskyldufólki með börn og vagna þar sem farið er eftir stígum dalsins en hin leiðin ætti að kæta þá sem vilja spretta úr spori og keppa við tímann. Einnig verður sett upp örbraut þar sem gestum býðst að prófa rathlaup með rafeindabúnaði fyrir tímatöku og stöðvamerkingu.

Í lok leikja og hlaups verður boðið upp á ylvolga skógarsaft. Þátttaka er ókeypis og allir velkomnir.

Athugið! Þátttakendur eru hvattir til að koma sér á staðinn með umhverfisvænum hætti; gangandi, hlaupandi, hjólandi, með almenningsvagni eða með því að samnýta bílferðir.

Þessa dagana og til loka september stendur einnig yfir myndlistasýning Harðar Hilmissonar, Ratleikur litanna, í Café Flóru í Grasagarðinum. Sýningin er opin alla daga á opnunartíma Café Flóru, kl. 10-22.

Ljósmynd: Drengir í ratleik, Grasagarður Reykjavíkur.

Birt:
12. september 2012
Tilvitnun:
Hildur Arna Gunnarsdóttir „Náttúruratleikur og rathlaup í Grasagarði Reykjavíkur“, Náttúran.is: 12. september 2012 URL: http://nature.is/d/2012/09/12/nattururatleikur-og-rathlaup-i-grasagardi-reykjavi/ [Skoðað:25. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: