Drög að landsskipulagsstefnu 2013-2024 voru kynnt á fundi Skipulagsstofnunar á föstudag. Ætlunin er að stefnan, verði hún samþykkt á Alþingi í vetur, taki við hlutverki Svæðisskipulags miðhálendisins frá 1999. Í því þrettán ára gamla skipulagi var hálendinu skipt í verndarsvæði og tvö mannvirkjabelti sem fylgdu Kjalvegi og veginum yfir Sprengisand.

Í þeim drögum sem Skipulagsstofnun kynnti á föstudag er áfram gert ráð fyrir þessum mannvirkjabeltum sem halda opnum möguleikanum á háspennulínu og virkjanabelti eftir Sprengisandsleið. Í því virkjanabelti yrðu Hágönguvirkjun og Skrokkölduvirkjun á miðhálendinu við jaðar Vatnajökulsþjóðgarðs og Fljótshnúksvirkjun og Hrafnabjargavirkjun í Skjálfandafljóti. Hafinn er undirbúningur fyrir þessar virkjanir með útgáfu rannsóknarleyfa. (1,2)

Hið sérkennilega er að Skipulagsstofnun leggur til mannvirkjabelti yfir hálendið þrátt fyrir að höfundar tillögunnar geri sér fulla grein fyrir mikilvægi þess að það njóti verndar. Þannig segir á einum stað í tillögunum: ,,Víðerni bjóða upp á einstaka upplifun sem sífellt færri landsvæði á heimsvísu geta boðið upp á. Mikilvægt er því að vernda íslensk víðerni. Mikilvægt er að almenningur geti notið þeirrar sérstöðu sem hálendið hefur upp á bjóða, án þess að á hana sé gengið." Og síðar: ,,Í umhverfismati við mótun landsskipulagsstefnu voru skoðaðir sérstaklega valkostir um megin flutningskerfi raforku um miðhálendið og utan þess. Matið á þeim valkostum, bendir til umtalsverðra neikvæðra umhverfisáhrifa af uppbyggingu flutningskerfis raforku yfir hálendið, ekki síst á landslag og ímynd hálendisins."

En hvernig ætli standi á því að tillögurnar eru svona virkjanasinnaðar fyrst höfundar hennar hafa svo skýra mynd af umhverfisáhrifunum? Svarið er einfalt. Tillögurnar byggja að miklu leyti á umfjöllun starfshóps sem var að mestu skipaður fulltrúum sveitarfélaga og samtaka þeirra, opinberra stofnana, t.d. Vegagerðarinnar og Orkustofnunar og fyrirtækja sem sinna uppbyggingu  og rekstri grunngerða, t.d. Landsvirkjunar og Landsnets. Að jafnaði sat einn fulltrúi náttúruverndarhreyfingarinnar fundi hópsins. Vissulega var öllum almenningi boðið að taka þátt í fundunum, en fundartímar gerðu það að verkum að vinnandi fólk var útilokað.

Þannig að drög að tillögu að skipulagi hálendisins til næstu tólf ára er lögð fram á forsendum virkjanaiðnaðarins.  Búist er við að tillagan verði formlega kynnt um miðjan september og þá hefur almenningur átta vikur til að gera athugasemdir við hana. Síðan er það umhverfisráðherra að vinna úr þeim athugasemdum og leggja fram endanlega tillögu fyrir Alþingi í formi þingsályktunar.

Ef umhverfisráðherra leyfir sér svo að gera breytingar á þessum tillögum virkjanaiðnaðarins í anda þeirra umsagna sem berast frá almenningi, líkt og gerðist með rammaáætlun, þá munu fjölmiðlar væntanlega flytja okkur fjölda frétta af því hvernig pólitíkin hafi tekið tillögurnar úr hinu ,,faglega" ferli. Síðan mun Alþingi rífast um aukaatriði tillögunnar þar til málið verður svæft í nefnd. Best væri að spara okkur margra mánaða argaþras og leyfa þjóðinni að kjósa um það í haust hvort hún vilji mannvirkjabelti á hálendinu.

Grafík: Myndin er samsett úr tveimur kortum Skipulagsstofnunar og Náttúrukorti Framtíðarlandsins. Hún sýnir mörk hálendisins, fyrirhuguð verndarsvæði, mannvirkjabeltin og virkjanaáform samkvæmt rammaáætlun.

Birt:
20. ágúst 2012
Tilvitnun:
Guðmundur Hörður Guðmundsson „Mannvirkjabelti á hálendinu“, Náttúran.is: 20. ágúst 2012 URL: http://nature.is/d/2012/08/20/mannvirkjabelti-halendinu/ [Skoðað:25. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: