Nýtínd sólberSólber eru svolítið sérstök.
Annaðhvort vilja menn þau ekki eða skynja bragðið næstum sem nautn. Nýtt kvæmi af sólberjarunnum, sem hefur borist til landsins, gefur mikið af sér og vex auðveldlega. Sólberjasafi er best þekktur af afurðum sólberja. Blöðin eru notuð þegar piklað er og til að auka brjóstamjólk. Ef ég næ ekki að borða öll sólberin hrá frysti ég þau upp á gamla mátann með því að velta þeim upp úr svolitlum hrásykri eða sulta þau heil.

Sólber sultuð heil:
Upprunalega uppskriftin hljóðar upp á kg af sólberjum móti kg af sykri og 1/4 bolla af vatni.
Sykurinn er bræddur í vatninu og þvegin og hreinsuð berin sett út í og soðið í 1–2 mínútur.
Kælt og látið standa til næsta dags.
Hitað og soðið í 15 mínútur. Berin tekin frá og vökvinn soðinn niður um helming og síðan er berjunum bætt út í að nýju.

Hreinsuð sólber

Ég ákvað að setja fjallagrös í þessa uppskrift og minnka sykurinn. Setti aðeins helming af sykri á móti berjunum. Hreinsaði lúku af fjallagrösum vel og vandlega. Sauð þau í 3 mínútur, tók þau upp og saxaði fínt. Setti svo grösin í með sykrinum og berjunum á öðrum degi og lét suðuna koma vel upp og malla í 15 mínútur. Lét standa til næsta dags og sauð þá í 10 mínútur. Tók berin upp úr með fiskispaða og setti á krukkur svo þær væru hálffullar og sauð vökvann niður um helming. Fyllti krukkurnar með leginum.

Sólberjasulta á kexiÞetta hleypur ekki en verður þykk berjasósa tilbúin á kökur og búðinga og vöfflur en of þunn á kex eða brauð. Sumar krukkurnar frysti ég en aðrar set ég í ísskáp og sé til hvernig þeim reiðir af og hvort fjallagrösin hafa áhrif til rotvarnar. Þau gefa sultunni gott bragð.

Úr Ætigarðinum - handbók grasnytjungsins, eftir Hildi Hákonardóttur. 

Ljósmyndir: Efsta myndin er af nýtíndum sólberjum, sú í miðið af hreinsuðum sólberjum í skál og sú neðsta af sólberjasultu á kexi. Ljósm. Guðrún Tryggvadóttir.

Birt:
24. ágúst 2014
Tilvitnun:
Hildur Hákonardóttir „Sólber“, Náttúran.is: 24. ágúst 2014 URL: http://nature.is/d/2007/08/16/slber/ [Skoðað:25. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 16. ágúst 2007
breytt: 24. ágúst 2014

Skilaboð: