Íslendingar endurvinna ekki umbúðagler og brjóta þannig EES-samninginn. Stór hluti umbúðaglers er hins vegar endurnýttur. Búast má við ákæru vegna þessa, en ólíklegra þykir að sektum verði beitt, segir lögfræðingur ráðuneytis.

Íslendingar eru langt frá því að uppfylla sett markmið um endurvinnslu á gleri. Endurvinna átti 60 prósent af umbúðagleri í lok árs 2011 samkvæmt settum markmiðum. Árið 2009 var ekkert gler endurunnið, eða núll prósent. Síðan þá hafa engar breytingar verið gerðar á meðhöndlun á gleri svo vitað sé.

Markmiðin eru byggð á EES-samningnum og landið því að brjóta samninginn.

„Mjög líklegt er að okkur verði stefnt, en það eru minni líkur á einhverjum sektum ef það er fyrirséð að við vinnum að því að bæta okkur," segir Kjartan Ingvarsson, lögfræðingur hjá umhverfisráðuneytinu.

Hann bendir þó á að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hafi stefnt nokkrum aðildarríkjum fyrir að innleiða úrgangstilskipunina ekki rétt og ekki á réttum tíma. Það hafi í auknum mæli haft í för með sér sektargreiðslur sem aðildarríki hafi þurft að borga til Evrópusambandins. Hann segir því ekki hægt að útiloka sektir.

Til stendur að bæta endurvinnslu á gleri og er markmið stjórnvalda að koma á sérstakri söfnun á gleri, pappír, málmum og plasti árið 2015. Kjartan segir mögulegt að söfnunin fari jafnvel fyrr af stað.

„Það þarf að tryggja að gleri sé safnað og það fari í endurvinnslu. Ráðuneytið er að vinna að innleiðingu á því og lagt verður fram frumvarp um það á Alþingi í haust." Aðeins broti af því gleri sem til fellur er safnað saman eins og er.

„Þetta snýst um umbúðagler. Hér á landi er aðallega safnað drykkjarvöruumbúðum úr gleri, en það er lítil áhersla lögð á að safna saman öðrum glerumbúðum. Það er talsvert mikið magn þó svo að tölur um það liggi ekki alveg fyrir," segirKjartan.

Munurinn á endurnýtingu og endurvinnslu

Munurinn á endurnýtingu og endurvinnslu er að með endurvinnslu er glerið brætt og aðrir glermunir gerðir úr því. Með endurnýtingu er glerið notað í eitthvað annað, til dæmis brotið niður og notað við stígagerð eða sem uppfyllingarefni ofan á urðunarstaði. Endurnýting og endurvinnsla er því ekki það sama. Íslendingar eru duglegir að endurnýta gler, en endurvinna það hins vegar ekki. Samtals var rúmlega níu tonnum af gleri safnað árið 2009. Ekkert var endurunnið, en tæp sex tonn endurnýtt eða 64 prósent.

Endurvinnslan dýr og mengandi

„Mjög víða er gler ekki kerfisbundið endurunnið vegna þess að sú vinnsla er dýrari en að taka fram sandinn sem liggur víða og vinna úr honum nýtt gler," segir Helgi Lárusson, framkvæmdastjóri Endurvinnslunnar.

Helgi bendir á að við endurvinnslu á gleri þurfi að hreinsa það mjög vel, bæði allan pappír af ílátunum og allt innihald. Þessi hreinsun sé mengandi. Að auki þurfi að flytja glerið með flutningabíl í skip, sigla skipinu í höfn erlendis, og þaðan keyra það í glerbræðslu. Þessir flutningar mengi líka.

„Og þá kemur alltaf upp spurningin: Hvað viltu ganga langt og hvenær er verið að vernda umhverfið? Er þetta umhverfisvænt eða ekki?" Helgi segir skynsamlegra að endurnýta glerið. "Við höfum frekar notað þetta í malbik, glerteppi, í viðhald á görðum eða saxað glerið í sand og notað í stíga." Helgi telur það betri kost en endurvinnslu. „Það er mjög dýrt að endurbræða gler og það kostar mengun að endurvinna það."

Ljósmynd: Græn glerflaska í glugga, Guðrún A. Tryggvadóttir.

Birt:
16. júlí 2012
Höfundur:
Katrín
Uppruni:
Fréttablaðið
Tilvitnun:
Katrín „Megum eiga von á kæru vegna glersins“, Náttúran.is: 16. júlí 2012 URL: http://nature.is/d/2012/07/16/megum-eiga-von-kaeru-vegna-glersins/ [Skoðað:19. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: