Af hverju að fara langt þegar þú getur notið góðs sumarfrís í næsta nágrenni. Alltof margir ferðast um hálfan hnöttinn en gleyma að ferðast um sitt eigið land. Útivera er ein skemmtilegasta leiðin til að halda sér og fjölskyldu sinni heilbrigðri og léttri í lund. Ferðalög þurfa ekki að vara lengi en það getur verið yndisleg upplifun fyrir fjölskylduna að komast aðeins út fyrir borgina eða bæinn og út í náttúruna. Keyrið varlega og njótið þess að skoða út um gluggan það sem fyrir augum ber.

Áður en þið leggið af stað er ráðlagt að gera lista yfir hluti sem þarf að taka með, staði sem á að sjá o.fl. Best er að reyna að takmarka hluti sem þið takið með. Ráðlegt er að notast aðeins við fjölnota umbúðir fyrir matvæli og hluti. Ef að vaska þarf upp eða þvo föt úti í náttúrunni er best að notast við umhverfismerkt þvottaefni og uppþvottalög. Mikilvægt er að reyna að þvo ekki mikið upp úr ám eða lækjum, hægt er að notast við vaska á tjaldstæðum. Mikilvægt er að sýna náttúrunni virðingu, í því felst að skilja ekki eftir rusl á drasl á jörðinni, best er að taka það heldur með ykkur í bílinn og henda því svo í næsta ruslagám. Einnig er mikilvæg að skilja náttúruna við sig eins og maður kom að henni. Í ferðalaginu er sniðugt að reyna að nota bílinn sem minnst, hægt er að fara í gönguferðir eða jafnvel taka reiðhjól með í ferðalagið. Ef að fara á í gönguferðir er best að hafa í huga að ganga eftir merktum gönguleiðum, annað getur verið slæmt fyrir jarðveginn, þú gætir lent inná einkalóð eða lent í ógöngum eða hættu. Sama á við um bíla. Mikilvægt er að keyra aldrei utanvega, það er vanvirðing við náttúruna, hjólför geta rist jarðveginn djúpt og eyðilagt gróður.

Myndin er af Daníel Tryggva Guðrúnarsyni og Vilhjálmi Hjálmarssyni að baða sig í heitum læk í Reykjadal. Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir.

Birt:
3. júlí 2013
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Ingibjörg Elsa Björnsdóttir „Að ferðast innanlands“, Náttúran.is: 3. júlí 2013 URL: http://nature.is/d/2007/03/28// [Skoðað:16. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 28. mars 2007
breytt: 3. júlí 2013

Skilaboð: