Formaður Sjálfstæðisflokksins fjallaði um stöðu rammaáætlunar í ræðu á flokksráðsfundi í Kópavogi í dag. Hann hafði áhyggjur af því að svæði sem falla í virkjanaflokk samkvæmt áætluninni verði of fá. Nú sýnist mér á því sem sagt hefur verið frá í fréttum að svæði sem falla í þann flokk geti skaffað raforku á við tvær Kárahnjúkavirkjanir. Samt segir formaður Sjálfstæðisflokksins: ,,Öfgamenn í umhverfismálum eru hreinlega að taka orkumál á Íslandi - og þar með verðmætasköpun til langrar framtíðar - í gíslingu."

Svona er öllu snúið á hvolf í umræðunni. Ég fæ að minnsta kosti ekki séð hófsemdina í því að selja á milli 80 og 90% raforkuframleiðslunnar til álvera, fórna náttúruperlum og víðernum sem hafa bæði fagurfræðilegt og efnahagslegt gildi, og skuldsetja enn frekar orkufyrirtæki í almannaeigu. Það er kominn tími á að kalla hlutina réttum nöfnum: Stóriðju- og virkjanasinnar sem vilja auka skuldir orkufyrirtækja, fórna náttúruverðmætum og setja öll eggin í álkörfuna, þeir eru öfgafólkið. Náttúruverndarfólk sem vill draga úr skuldsetningu fyrirtækja í almannaeigu, vernda sífellt verðmætari náttúruperlur og víðerni, og stuðla að fjölbreyttara atvinnulífi, það er hófsemdarfólk.

Um þetta fjallaði ég nánar í ræðu á aðalfundi Landverndar í fyrra.

Birt:
17. mars 2012
Tilvitnun:
Guðmundur Hörður Guðmundsson „Bjarni Ben og öfgafólkið“, Náttúran.is: 17. mars 2012 URL: http://nature.is/d/2012/03/18/bjarni-ben-og-ofgafolkid/ [Skoðað:29. mars 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 18. mars 2012

Skilaboð: