Fátt er eins notalegt eins og að setjast niður á venjulegu kaffihúsi og sötra ljúffengan heitan kaffibolla og ekki er verra ef góð bók eða lestölva er með í farteskinu. Maður er einnig manns gaman og á kaffihúsum er alltaf möguleiki á því að hitta skemmtilegt fólk sem er tilbúið að spjalla um daginn og veginn. Ekki skyldi því furða þótt ég heimsæki kaffihús næstum daglega.

En hvað skyldi þurfa mikið af vatni til að búa til einn venjulegan kaffibolla af svörtu kaffi?  Það þarf hvorki meira né minna en um 140 lítra af vatni til að skapa einn kaffibolla skv. Water Footprint Network - waterfootprint.org. Hvernig getur það verið? Jú, ræktun blessaðrar kaffiplöntunnar þarfnast svona mikils vatns.

Nú er vatnsnotkunin í sjálfu sér ekki vandamál svo framarlega sem um sjálfbæra vatnsnotkun er að ræða. Hins vegar vandast málið, sé verið að rækta kaffi á svæðum þar sem vatnsskortur er mikill og þar sem grunnvatnsstaðan fer lækkandi frá ári til árs. Vatnsskortur er víða orðinn vandamál í veröldinni og það er fyrirsjáanlegt að verðið á kaffibollanum okkar hér á Íslandi gæti hugsanlega hækkað í framtíðinni vegna vatnsskorts á þeim svæðum þar sem ræktun kaffiplöntunnar fer fram. Þess vegna skiiptir miklu máli að stunduð sé sjálfbær nýting á vatni, sem getur staðið undir sér til lengri tíma litið.

Ekki skiptir síður máli að kaffið sé sanngirnisvottað eða „Fair Trade“ eins og það heitir. Ef kaffið er ekki sanngirnisvottað er mikil hætta á því að sjálfur ræktandi kaffiplöntunnar – bóndinn, fái lítið sem ekkert greitt fyrir ræktun sína og lifi við sífellt hungur og vosbúð. Til þess að tryggja sanngirni og tryggja að bóndinn fái mannsæmandi laun sem geta séð honum og fjölskyldu hans farborða, er öruggast að kaupa sanngirnisvottað „Fair Trade“ kaffi. Ef slíkt kaffi er ekki til í verslunum er um að gera að spyrja um það og skapa þannig eftirspurn. Við neytendur höfum ótrúlegt vald í höndum okkar þegar við kaupum inn vörur. Það vald eigum við að nota til að skapa grænt hagkerfi, bæði hér á Íslandi og í heiminum öllum.

Ljósmynd: Kaffi og Kindle, Ingibjörg Elsa Björnsdóttir.

Birt:
13. mars 2012
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Ingibjörg Elsa Björnsdóttir „Hinn daglegi kaffibolli“, Náttúran.is: 13. mars 2012 URL: http://nature.is/d/2012/03/13/hinn-daglegi-kaffibolli/ [Skoðað:20. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: