Skýrsla Samtaka álframleiðenda og Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um framlag áliðnaðarins til landsframleiðslu var birt í gær. Eftir að hafa rennt yfir skýrsluna í kvöld og horft á fréttir Rúv og Stöðvar 2 þá tel ég rétt að vekja athygli á eftirfarandi:

1. Samkvæmt skýrslunni er beint framlag álveranna til vergrar landsframleiðslu um 45 milljarðar króna. Það er hins vegar ekkert fjallað um það í skýrslunni eða umfjöllun Rúv og Stöðvar 2 hversu stór hluti af þessari upphæð rennur út úr hagkerfinu aftur vegna vaxta af erlendum lánum og sem arðgreiðslur til erlendra eigenda álveranna. Það er sérkennilegt að Hagfræðistofnun hafi valið þetta viðmið, ekki síst í ljósi þess að síðar í skýrslunni segir: ,,Verg þjóðarframleiðsla dregur vaxtagreiðslur sem greiddar eru til útlanda frá heildarvirðisauka. Það má því færa rök fyrir því að verg landsframleiðsla sé í raun slæmur mælikvarði á neyslugetu landsmanna og að betra væri að notast við verga þjóðarframleiðslu."

2. Fullyrt er að óbeint framlag álveranna til vergrar landsframleiðslu sé 40-51 milljarður króna. Ég er hræddur um að það þurfi að greina þessa niðurstöðu vandlega, ekki síst í ljósi þess sem segir í skýrslunni sjálfri: ,,Töluleg gögn um framlag áliðnaðar til landsframleiðslu, sérstaklega hið óbeina framlag, eru takmörkuð. Þá eru þau gögn sem fyrir liggja, þ.á.m. í gagnasafni Hagstofunnar, og aflað hefur verið í þessari rannsókn, alls ekki einhlít og þau má túlka með mismunandi hætti." Að mínu mati bendir þetta til að þessi niðurstaða skýrslunnar byggi ekki á mjög traustum grunni.

3. Rúv sagði að álafurðir næmu um 40% alls útflutnings og að það væri svipað hlutfall og útflutningur sjávarafurða. En þar með er bara hálf sagan sögð því að í fréttum var ekki minnst einu orði á að aðföng áliðnaðar næmu um 20% af heildarvöruinnflutningi.

4. Ragnar Árnason prófessor, einn höfunda skýrslunnar, sagði í viðtali við Stöð 2 að 700 fyrirtæki störfuðu í tengslum við álfyrirtækin. Að óathuguðu máli ætla ég ekki að efast um sannleiksgildi þessa en í fljótu bragði sýnist mér þó hvergi getið um þetta í skýrslunni.

Í skýrslunni koma fram mjög áhugaverðar upplýsingar sem fengu því miður enga umfjöllun í fjölmiðlum. Annars vegar komast höfundar að þeirri niðurstöðu að það sé langsótt að telja umtalsverðan þjóðhagslegan ábata hafa orðið af tímabundinni atvinnuaukningu vegna fjárfestinga í áliðnaði og hins vegar lýsa þeir þeirri skoðun sinni að afar æskilegt sé að ráðast í ítarlegar rannsóknir á umhverfiskostnaði vegna virkjana. Ég læt tilvitningar um þetta fylgja:

„Þá má ekki gleyma því að aðrar framkvæmdir hefðu getað unnið gegn atvinnuleysi. Til að mynda hefði verið unnt að nota fjármuni sem varið var í virkjanaframkvæmdir vegna stóriðju (nálægt helmingur heildarfjárfestinganna) í aðrar atvinnuskapandi og jafnvel hagvaxtarskapandi aðgerðir. Þá má heldur ekki gleyma því að það er hlutverk almennrar efnahagsstjórnar að sjá til þess að atvinnustig sé á hverjum tíma hæfilegt. Til þess að svo verði þarf ekki sértækar fjárfestingar fyrir forgang hins opinbera. Enn fremur er rétt að hafa í huga að þær sveiflur í tiltölulega sérhæfðu atvinnustigi vegna fjárfestinga í ál- og orkuiðnaði höfðu í för með sér ýmsan aðlögunarkostnað. Þegar á allt þetta er litið virðist fremur langsótt að telja umtalsverðan þjóðhagslegan ábata hafa orðið af tímabundinni atvinnuaukningu vegna fjárfestinga í áliðnaði."

„Afar æskilegt er að í framtíðinni verði ráðist í ítarlegri rannsóknir til að afla haldbetri upplýsinga um umhverfiskostnað vegna virkjana."

„Ljóst er að hér á landi hafa rannsóknir á verðmæti náttúru Íslands og einstaka þáttum hennar verið ábótavant. Nauðsynlegt er að bæta úr því og gera nákvæmar og ítarlegar úttektir á náttúrugæðum landsins. ... Hvort sem umhverfisáhrif áliðnaðar eru jákvæð eða neikvæð, þegar á heildina er litið, er ljóst að verðmæti þeirra þarf að bæta við önnur þjóðhagsleg áhrif iðnaðarins. Til þess að það verði gert af viðunandi nákvæmni er þörf á stórauknum vönduðum rannsóknum á þessari hlið málsins."

Ljósmynd: Raflínur og álver, Árni Tryggvason.

Birt:
9. mars 2012
Tilvitnun:
Guðmundur Hörður Guðmundsson „Skýrsla álveranna um eigið ágæti“, Náttúran.is: 9. mars 2012 URL: http://nature.is/d/2012/03/09/skyrsla-alveranna-um-eigid-agaeti/ [Skoðað:24. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: