Umhirða bílsins

  • Best er að fara með bílinn í allsherjarskoðun hjá bílaumboðinu að minnsta kosti einu sinni á ári.
  • Ráðlagt er að gá að loftþrýstingnum í dekkjunum reglulega.
  • Dekkin slitna minna ef loftþrýstingurinn er réttur auk þess sem eldsneyti sparast ef dekkin eru ekki of loftlítil.
  • Gott er að bóna bílinn nokkrum sinnum á ári. Þá festist olía og ryk síður á bílnum. Hreinn bíll sparar eldsneyti því viðmótið af óhreinindunum hefur sín áhrif.
  • Hægt er að fá vistvæn og umhverfismerkt hreinsiefni fyrir bílinn. Betra er að velja hreinsiefni sem byggir á propylenglykol en etylenglykol. Propylenglykol er minna eitrað. Ensímefni eru vistvæn lausn. Umhverfismerkt hreinsiefni eru til í miklu úrvali í dag.
  • Nauðsynlegt er að hafa viftu í bílskúrnum til að halda loftinu á hreyfingu, sérstaklega þegar bíllinn kemur blautur inn eða snjóbarinn. Annars ryðgar bíllinn mjög fljótt.

Nokkur öryggisatriði

  • Hættulegt er að geyma drasl í bílnum. Það getur kastast til við árekstur og valdið miklum skaða.
  • Ónauðsynlegt er að nota nagladekk nema algjöra nauðsyn krefji.
  • Ráðlagt er að taka toppgrindina og tengdamömmuboxið af bílnum þegar þú þarft ekki á þeim að halda. Box eykur loftmótstöðu og eyðslu um allt að einn lítra á hverja 100 km.
  • Aktu á löglegum hraða. Bíll sem keyrir á 100 km hraða í stað 80 km/klst. eyðir um 20% meira eldsneyti. Ef þér liggur lífið á að ná næsta rauða ljósi, hafðu þá í huga að stór hluti eldsneytisnotkunar innanbæjar fer í að taka af stað. Best er að halda jöfnum hraða.

Þarftu raunverulega bíl?

Ef að þú er að hugsa um að kaupa bíl, íhugaðu þá fyrst hvort þú þurfir nauðsynlega á nýjum bíl að halda. Þú getur tekið leigubíl ansi oft í stað þess að eiga bíl.

Dæmi: Aukabíll á heimilið kostar um 900.000 krónur á ári með tryggingum, afskriftum, bensíni o.s.fr.v. Ef hjón geta samekið í vinnu og það sem sækir börnin tekur bílinn og hitt leigubíl heim og leigubíllinn kostar um 2000 krónur reiknast dæmið þannig: Flest fólk vinnur um 220 daga á ári og þá kostar leigubíllinn um 440.000 krónur á ári. Þegar mikið liggur við er hægt að taka bílaleigubíl þar sem þeir eru ódýrir 9 mánuði á ári, auk þess að það er hægt að skemmta sér og taka marga leigubíla í viðbót fyrir 460.000 krónur.

Auk þess er hollt og gott að ganga stuttar vegalengdir.

Veldu minnsta bílinn

Ekki velja stærri bíl en þú þarft á að halda. Hugsaðu um umhverfið og veldu minnsta bílinn sem þú kemst af með. Flestir kaupa bíl sem uppfyllir allar þarfir fólks alltaf. Það þýðir að fólk er að kaupa bíl sem er kannski fullnýttur 5 daga á ári en vannýttur 360 daga. Þetta er léleg hagfræði. Kauptu þér bíl sem passar 360 daga á ári og síðan er hægt að finna lausn fyrir hina 5 dagana sem er mun ódýrari en að kaupa stærri bíl. 

Að nota sama bílinn

Athugaðu hvort að þú getur fengið far með samstarfsmanni í vinnuna. Því fleiri sem deila bíl, því betra fyrir umhverfið auk þess sem að það getur verið miklu skemmtilegri ferðamáti.

Að nota fjarskiptin í stað bílsins

Ef þú notar símann og tölvupóst meira sparar þú bílinn. Aktu minna með því að nota veraldarvefinn. Með því að senda tölvupóst og halda fjarfundi, má draga úr ferðalögum. Að versla í netverslunum er í raun mjög umhverfisvænt.

Umhverfisvænir bílar

Það felst ákveðin þversögn í að tala um „umhverfisvæna“ bíla og nærri lagi að nota hugtakið „minna umhverfisskaðandi“ eða í mesta lagi „visthæfir“, því enginn bíll er sérstaklega vænn umhverfinu. Líta verður á allan líftíma bílsins til að skoða umhverfisáhrif, jafnt hráefnisöflun í bíinnn, orku til famleiðslu, efnanotkun við framleiðslu, flutninga, áhrif af akstri á notkunartíma, endingu og að lokum förgun.

Reykjavíkurborg skilgreinir visthæfa bíla eftir eldsneytiseyðslu og eldsneytisgerð. Samkvæmt því falla 22 bílar á íslenskum markaði undir það að geta talist visthæfir. 

Tvinnbílar nota bæði bensínvél og rafmagnsvél og losa mun minna af mengandi lofttegundum en bensínbílar af sömu stærð.
Tvinnbíllinn Toyota Prius var valinn bíll ársins í Evrópu árið 2005 og er vinsæll bíll hérlendis. Toyota fullyrðir að bíllinn sé 90% endurvinnanlegur.

Tvinnbílinn Honda Civic fæst einnig á Íslandi. Einnig er hægt að fá Lexus tvinn fólksbíla og jepplinga.

Metanbíla er þó óhætt að tala um sem „umhverfisvæna“ á notkunartíma þeirra. Í fyrsta lagi er brennsla metans kolefnishlutlaus og í öðru lagi eyðir hún metangasi sem er verulega slæm gróðurhúsalofttegund. Hægt er að umbreyta næstum hvaða bíl sem er til að brenna metangasi, þó deilt sé um gæðin. 555 bílar keyrðu á metani á Íslandi [júlí 2011]. 69 nýir metanbílar voru keyptir á Íslandi árið 2013 en nokkur fyrirtæki bjóða upp á metanbreytingar og nutu þær nokkurra vinsælda árið 2012 en þá var 195 bílum breytt í metanbíla. Árið 2013 var þó aðeins 57 bílum breytt í metanbíla.

Díselbílar geta verið hentugir ef þeir eru með sótagnasíu sem síar úr hættulegt svifryk og PAH agnir. Díselbílar menga hinsvegar talsvert þannig að díselbíllinn er ekki betri en bensínbíllinn nema hann sé með hvarfakút og sótagnasíu. Athugaðu að sían hreinsar sig sjálf.

Rafmagnsbíll

Þeir eru yfirleitt smáir og komast ekki langt í einu en þeir eru ódýrir í rekstri og umhverfisvænstu farartæki sem völ er á í dag. Yfir 1000 rafbílar [í ágúst 2016] eru umferð á Íslandi fyrir utan tvinnbílana sem ganga fyrir bensíni og rafmagni. Fjölbreytni í framboði rafbíla hefur líka aukist verulega undanfarið. Hraðhleðslustöðvum fjölgar stöðugt og eru nú tíu [í ágúst  2016]. En betur má ef duga skal.

Sjá einnig „Lakk og umhirða þess“.

 

Birt:
2. september 2016
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir, Ingibjörg Elsa Björnsdóttir, Einar Einarsson „Bíll “, Náttúran.is: 2. september 2016 URL: http://nature.is/d/2007/06/21/bll/ [Skoðað:28. mars 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 21. júní 2007
breytt: 2. september 2016

Skilaboð: