Gras, grafík eftir Hildi Hákonardóttur úr bókinni ÆtigarðurinnElfting er ein af fyrstu villtu tejurtunum til að sýna sig. Klóelfting þykir best og það er auðvelt að þekkja hana frá öðrum afbrigðum allra fyrst á vorin því hún myndar kólf sem nefnist góubitill eða skollafingur, og eftir honum er hægt að setja á sig vaxtarstaðinn. Hann heitir eftir góunni þó hann komi ekki það snemma upp að jafnaði. Á vorin er skemmtilegt að einsetja sér að sjá umbreytinguna. Fullvaxin líkist hún frænku sinni vallelftingunni sem þykir ekki eins kraftmikil. Elftingin er sögð heilsusamleg, sérstaklega fyrir eldra fólk, en hefur það á móti sér að hún er ósköp bragðlaus. Það er því gott að nota hana með bragðsterkari jurtum eins og rjúpnalaufi, ljónslappa, vallhumli, spánarkerfli, piparmintu, snemmteknu birkilaufi eða kúmeni. Eggert segir: „Efsti partur þessarar jurtar verður etinn hrár á vorin, áður en grasið eldist. Best er þessi jurt í mjólkurgraut á vorin, söxuð sem kál, með litlu mjöli eða hveiti“.12 Hann segir líka frá því að hnúðar á elftingarrótunum, kölluð gvöndarber, hafi verið notuð til matar.

Lífræn úðun gegn sveppasýkingu
Elfting er notadrjúg við lífrænar plöntuvarnir og fyrirbyggjandi gegn sveppasýkingu einkum ef hún er notuð snemma, helst strax við sáningu og gagnast því vel einkum í gróðurhúsum á vorin. Setjið góðan slurk af elftingu í 1 lítra af vatni og sjóðið í 15 mínútur. Síið jurtirnar frá og notið seyðið í hlutfallinu 1:10 af vatni. Kísillinn í elftingunni er eins og samanýjappað sólarljós og vegna hans er elftingin allra plantna duglegust við að draga til sín orku ljóssins og miðla því frá sér aftur, segir Guðfinnur Jakobsson garðyrkjumaður í Skaftholti.

Garðabrúða, eða velantsurt, inniheldur valíum, einkum ræturnar, sem eru yfirleitt teknar á haustin en má vel taka á vorin og þess vegna á sumrin, ef verið er að lina taugaspennu eða vinna bug á svefnleysi. Hún vex nokkuð villt en það er þess virði að líta eftir henni og hlúa svolítið að rótunum þar sem hún hefur komið sér fyrir. Þegar gert er te úr garðabrúðu vilja sumir láta ræturnar liggja í köldu vatni eingöngu og drekka síðan. Aðrir hella yfir þær sjóðandi vatni eða sjóða þær svolitla stund. Ég geri gjarnan hvort tveggja eins og líflæknir keisarans í Kína mun hafa gert. Læt þær fyrst liggja í köldu vatni, tek svo upp ræturnar og set í sjóðandi vatn og læt aðeins malla, blanda svo þessu tvennu saman. Teið er ekki vanabindandi. Þegar taugaspennan hverfur gleymist fljótt að leita uppi ræturnar. Séra Björn lætur að því liggja að hún örvi allt karlkyns, bæði menn og skepnur, enda sækist högnar eftir því að leggjast í beð innan um garðabrúðu.

Gras má gjarnan klippa á vorin og setja í matvinnsluvél eða hakkavél og hella yfir svolitlu vatni og fá þannig fram grænan safa, sem virkar eins og orkuskot á líkamann. Svona drykkur er sterkur en smakkast ekki sérlega sætlega. Húsapunturinn er mikil lækningajurt og hans er víða getið. Rætur húsapunts eru taldar góðar fyrir nýrun og gegn nýrnasteinum. Jurtin er sögð skjótvirk og skaðlaus og þar sem hún er hreinsandi getur hún unnið gegn gigtarsjúkdómum. Það er þó heilmikið verk að grafa upp ræturnar og ekki síður að skola þær, en þurfi að gera það á annað borð til að hreinsa garðinn, er sjálfsagt að nota þær.

Úr Ætigarðinum - handbók grasnytjungsins, eftir Hildi Hákonardóttur. Grafík: Gras, Hildur Hákonardóttir.

Birt:
3. mars 2014
Tilvitnun:
Hildur Hákonardóttir „Elfting, garðabrúða og gras“, Náttúran.is: 3. mars 2014 URL: http://nature.is/d/2007/11/06/elfting-garabr-og-gras/ [Skoðað:23. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 6. nóvember 2007
breytt: 24. ágúst 2014

Skilaboð: