Kúmen má nýta með því að særa fyrstu og efstu laufin af plöntunum í salat, en það er þó síst þess sem hér er talið hvað bragð snertir. Nýju blöðin má hafa í súpu með brenninetlu og ræturnar má grafa upp og hafa í brauð og súpur. Kúmen er ekki fjölær jurt en sáir sér auðveldlega. Því kann að vera betra að tína það á víðavangi heldur en færa það í garðinn.

Piparrót eða horseradish vex vel hér á landi ef svolítið er hugsað um hana. Björn í Sauðlauksdal segir: „Piparrót vex hjá hverjum manni er vill; og þar sem hún er einu sinni plöntuð, lifir hún og eykst af sjálfri sér árlega, enda má planta hennar rótaöngum út, hvar við hún margfaldast mjög ... urtin vex best í deiglendi og forsælu.“ Blaðtoppana má taka inn á vorin með öðru villigrænmeti.

Rabarbari vex næstum því villtur og kemur upp snemma. Kolbrún Sigurbjörnsdóttir, húsmæðrakennari á Hallormsstað, hefur gert merkilegar tilraunir með rabarbarasultu þar sem hún notar fjallagrös til að auka geymsluþol. Kolbrún segir fjallagrösin virka sem rotvarnarefni, sultur með þeim geymist mun betur og þurfi þar af leiðandi minni sykur. Reynsla margra af brauðbakstri með fjallagrösum styður þetta. Brauðin mygla ekki.

Sulta með fjallagrösum og hvönn
Ég notaði sykur til helminga við rabarbarann og sauð með slatta af hvönn, líklega helming á móti rabarbaranum líka, og bætti svo í lúku af fjallagrösum. Ég reyndi þetta með hálfum huga fyrst. En viti menn. Beiskjan úr hvönninni fer fágæta vel á móti súrnum og fjallagrösin sömuleiðis en betra er að klippa þau vel því í sultu eiga þau að vera fínleg og varla finnanleg.

Frystur rabarbari í sultu
Ný aðferð við sultugerð er sú að brytja rabarbarann og frysta, láta síðan þiðna alveg og hella safanum frá. Sjóða því næst rabarbarann með sykri sem nemur helmingi af þyngd. Við þetta hverfur mikið af súrnum.

Úr Ætigarðinum - handbók grasnytjungsins, eftir Hildi Hákonardóttur. Grafík: Rabarbari, Hildur Hákonardóttir.

Birt:
24. júní 2015
Tilvitnun:
Hildur Hákonardóttir „Kúmen, piparrót og rabarbari“, Náttúran.is: 24. júní 2015 URL: http://nature.is/d/2007/11/06/kmen-piparrt-og-rabarbari/ [Skoðað:16. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 6. nóvember 2007
breytt: 24. júní 2015

Skilaboð: