Talning umbúða
Vönduð flokkun og talning skilagjaldsskyldra umbúða er nauðsynleg! Forsenda þess að hægt sé að endurvinna skilagjaldsskyldar umbúðir er að þeim sé skilað vel flokkuðum. Endurvinnslan leggur mikla áherslu á það við viðskiptavini sína að flokka vel eftir umbúðategundum (dósir, plastflöskur og glerflöskur) og framvísa nákvæmri talningu á hverri umbúðategund fyrir sig þegar umbúðum er skilað á endurvinnslustöðvar.

Hvaða umbúðir eru skilagjaldsskyldar?
Eftirtaldar umbúðir skilgreinast sem skilagjaldsskyldar umbúðir:

  • Ál- og stáldósir fyrir gosdrykki og bjór 33cl. og 50cl.
  • Plastflöskur fyrir gosdrykki 50cl. - 2 lítra.
  • Dósir, plast- og glerflöskur fyrir orkudrykki.
  • Dósir, plast- og glerflöskur fyrir tilbúna ávaxtasafa.
  • Glerflöskur fyrir gosdrykki frá Vífilfelli (allar einnota núna).
  • Glerflöskur fyrir öl (bjór)
  • Glerflöskur fyrir áfengi, bæði léttvín og sterk vín.

Almenna reglan er að umbúðir, fyrir utan þær umbúðir sem innihalda vín, þurfa að hafa innihaldið vatn með eða án kolsýru, eða vatnsblönduð efni til drykkjar, til að vera skilagjaldsskyldar. Um er að ræða tilbúna drykkjarvöru sem hægt er að drekka beint úr viðkomandi umbúð.

Á hverju er ekki skilagjald
Ekki er skilagjald á umbúðum undir ávaxtaþykkni, (t.d. Egilsþykkni), mjólkurdrykkjum eins og KEILU, matarolíu, tómatsósu eða þvottalög. Þessum umbúðum má skila í gáma fyrir plastumbúðir á endurvinnslustöðvum.

Hvert á að skila til að fá endurgreitt

Heimili geta skilað einnota drykkjarumbúðum á allar endurvinnslustöðvar. Athugið að aðeins er tekið við 1000 einingum hámark.  
Ekki er tekið við skilagjaldsskyldum umbúðum frá fyrirtækjum, stórsöfnurum, starfsmannafélögum og félagasamtökum. Fyrrnefndir aðilar og heimili sem eru með meira en 1000 einingar skila til Endurvinnslunnar hf. í Knarrarvogi 4.

Hvað er gert við hráefnið - endurnýting
Endurvinnslan hf. tekur við þeim umbúðum sem berast og baggar áldósir og plastumbúðir í pressum. Umbúðirnar eru svo fluttar erlendis til endurvinnslu. Framleiðsla úr endurunnum áldósum eru nýjar áldósir og úr gömlu plastflöskunum er framleidd polyester ull (efni) sem ný tist í fataiðnaði, teppaframleiðslu ofl. Flísföt eru þekktasta afurðin. Glerflöskur eru muldar og nýtast sem jarðvegsfyllingarefni hérlendis.

Skilagjald
Þessar drykkjarumbúðir eru eini flokkurinn sem tekið er við á endurvinnslustöðvum sem ber *skilagjald, þ.e. greitt er fyrir tómar umbúðir. Skilagjald er 14 kr. fyrir hverja einingu. Þær umbúðir sem um er að ræða eru þær sem bera skilagjald skv. reglugerð sem gefin var út af umhverfisráðuneytinu.

Góð skil
Hlutfallslega erum við að fá miklu meira af þessum umbúðum inn til endurvinnslu heldur en af öðrum flokkum eða um 80 - 85%. Má af því ráða að skilagjald sé sú leið sem virkar hvað best með tilliti til skila á flokkuðum úrgangi til endurvinnslu.

Mynd af vef Endurvinnslunnar hf.

Birt:
7. maí 2011
Uppruni:
SORPA bs
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Skilagjald á áldósum, plastflöskum og glerflöskum“, Náttúran.is: 7. maí 2011 URL: http://nature.is/d/2007/03/28// [Skoðað:16. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 28. mars 2007
breytt: 5. júlí 2012

Skilaboð: