Í sjálfbæru samfélagi er notað rafmagn sem framleitt er með endurnýjanlegum orkugjöfum eins og vatnsorku, vindorku og sólarorku. Ísland er ríkt af vatnsorku og jarðvarma og anna Íslendingar raforkuþörf sinni að 99,9% með þessum sjálfbæru innlendu orkugjöfum. Nýting á orku fallvatna hefur engin áhrif á afrennsli af landinu og því ekki hægt að ofnýta þessa orku. Vinnsla jarðhita er sjálfbær ef aðstreymi til jarðhitasvæðanna er í jafnvægi við vinnsluna.

Raforkunotkun á hvern íbúa á Íslandi er með því hæsta sem gerist í heiminum. Þetta má að mestu skýra með orkufrekri stóriðju en almenn orkunotkun íslenskra heimila er einnig mjög mikil.

Þurfum við þá nokkuð að spara? Þó við búum svo vel hér á landi að eiga nægar orkulindir í fallvötnum og jarðhita er ekki þar með sagt að ekki þurfi að spara þær. Með því að nýta innlenda raforku betur sparast auðlindir landsins og meira fæst út úr þeim fjárfestingum sem liggja í orkumannvirkjum landsins.

Lágmarka skal orkuþörf húsa og velja orkunýtin raftæki. Raftæki, eins og ísskápar og frystar, nota um 75% af raforkunotkun heimilisins. Raftæki eru flokkuð frá A til G út frá orkunýtni, A+++ er með bestu orkunýtnina en G þá verstu. Það er hreinn sparnaður af að huga að orkunýtni við kaup á nýjum tækjum.

Orkumerkin Energy Star og Evrópska orkumerkið hjálpa okkur til að finna orkusparneytnustu tækin. Þessi merki er yfirleitt að finna á tölvum og rafmagnstækjum ýmiss konar.

Raftæki í biðstöðu nota rafmagn stöðugt. Í raun nota sum þessara tækja meira rafmagn á meðan þau eru ekki í notkun heldur en þegar verið er að nota þau auk þess sem þau skapa eldhættu. Um allan heim er gífurlegri orku sólundað með tækjum í biðstöðu. Mikil umræða er að skapast um hvort að ekki þurfi að endurhanna rafmagnstæki þannig að alveg sé slökkt á þeim þegar slökkt er á rofanum.

Til að stuðla að orkuhagkvæmri lýsingu þarf vel skipulagt kerfi rafbúnaðar, ljósa og leiðslna. Þó er ekki nóg að huga eingöngu að orkunýtni því lýsing þarf einnig að vera stýrð og stillt samkvæmt þörf. Síðastliðin ár hefur átt sér stað þróun á orkusparandi raflýsingu og ljósgjöfum. Við skipulagningu á lýsingu þarf að íhuga allan ferilinn, allt frá því hve mörg vött eru sett inn í herbergi til ljósmagns og ljósgæða.

Ef þú smellir á hvert rafmangstæki hér í Húsinu og umhverfinu færðu upplýsingar um hvernig þú getur komist hjá óþarfa orkusóun.

Energy Star
Evrópska orkumerkið

 

Birt:
2. október 2013
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir, Varis Bokalders og Maria Block „Rafmagn“, Náttúran.is: 2. október 2013 URL: http://nature.is/d/2007/06/21/rafmagn/ [Skoðað:23. febrúar 2019]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 21. júní 2007
breytt: 12. júní 2014

Skilaboð: