Áskorun Náttúruverndarsamtaka Austurlands (NAUST) til ábúenda, umráðamanna og sveitarfélaga á Austur- og Suðausturlandi

Að undanförnu hefur fjöldi hreindýra fests í  girðingum, tarfar hafa fests saman á hornum í girðingaflækjum og jafnvel drepist vegna girðingadræsa sem skildar hafa verið eftir á víðavangi.  Þetta ástand er óviðunandi.

NAUST skorar á bændur á Mýrum í Hornafirði,  sem og aðra landeigendur og sveitarfélög á Suðaustur og Austurlandi að sýna ábyrgð  og fjarlægja þá miklu hættu sem villtum dýrum og búfénaði stafar af gömlum girðingum og girðingarflækjum sem liggja á víðavangi.

Á undanförnum árum hafa hreindýr flækst í sömu girðingardræsunum ár eftir ár. Nú á síðustu vikum hafa um 10-12 hreindýrstarfar fest hornin í girðingum eða girðingarrusli. Vitað er um minnst tvo tarfa sem drepist hafa af þessum sökum. Búið er að frelsa 6 tarfa með því að skjóta af þeim hornin þar sem tveir og tveir voru flæktir saman, en aðrir hafa verið losaðir með öðrum hætti. Rökin sem landeigendur sem bera ábyrgð á umræddum girðingum bera fyrir sig eru að hreindýrin eyðileggi girðingarnar sjálf og af því hljótist töluverður kostnaður fyrir þá. Stjórn NAUST tekur ekki þessi rök hvorki gild né afsökun fyrir  slíku hriðuleysi.

Þá  hvetur stjórn NAUST Umhverfisstofnun og Umhverfisráðuneytið til að sinna eftirlitsskyldu sinni og sjá til þess að sveitarfélög hirði vír, ónothæfar girðingar og girðingarflækjur þar sem landeigendur hafa ekki brugðist við, í samræmi við heimild í 12. gr. Girðingarlaga nr. 135/2001

12. gr. girðingarlaga
Þegar lögð er girðing af ábúanda fer um skyldur jarðeiganda við burtför ábúandans eftir sömu reglum og um hús á jörðinni sé að ræða, sbr. 16. gr. ábúðarlaga, nr. 64/1976.
Öllum umráðamönnum lands er skylt að hreinsa burtu af landi sínu ónothæfar girðingar og girðingarflækjur. Nú vanrækir umráðamaður lands þessi fyrirmæli í eitt ár eftir að lög þessi öðlast gildi og er þá sveitarstjórn skylt að framkvæma verkið á hans kostnað að fengnu mati búnaðarsambands og á sveitarstjórn þá lögveð í jörðinni fyrir greiðslu kostnaðar. Það sama gildir um eyðijarðir.

Ljósmynd: Hreindýr, flækt saman á hornunum með girðingarflækjum.

Birt:
20. október 2011
Tilvitnun:
Ásta Þorleifsdóttir „Girðingaflækjur ógna lífi hreindýra “, Náttúran.is: 20. október 2011 URL: http://nature.is/d/2011/10/19/girdingaflaekjur-ogna-lifi-hreindyra/ [Skoðað:18. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 19. október 2011
breytt: 23. nóvember 2011

Skilaboð: