Hættum að menga, spæna upp götur og anda að okkur svifryki! Keyrum um borgina á ónegldum en góðum vetrardekkjum!

HELSTU ÓKOSTIR NAGLADEKKJA

Nagladekk valda svifryki og slíta akbrautum hundraðfalt meira en önnur dekk. Ætla má að fólksbílar á negldum dekkjum frá meðalheimili spæni upp hálfu tonni af malbiki á ári og þyrli upp allt að 10 kg af heilsuspillandi svifryki.
Reykjavíkurborg þarf árlega að endurnýja um 10.000 tonn af malbiki vegna slits af völdum nagladekkja sem kostar u.þ.b. 150 til 200 milljónir kr. á ári.
Nagladekk valda meiri hljóðmengun en önnur dekk.

HVAÐ ER SVIFRYK?

Svifryk er fínasta gerð rykagna sem eiga greiða leið í öndunarfærin. Börn og fólk með viðkvæm öndunarfæri eða astma ætti að halda sig fjarri fjölförnum umferðargötum þegar mengunargildi mælast há.
Í Reykjavík er svifryk 50% uppspænt malbik, 10% sót 25% jarðvegur og salt og bremsuborðar 15%. Önnur hver bifreið í Reykjavík var á negldum dekkjum í febrúar 2007.
Svifryksmengun er ein af helstu ástæðum heilbrigðisvandans sem rekja má til mengunar í borgum.

Í STAÐINN FYRIR NAGLADEKK

Vetrardekk:
Góð vetrardekk duga vel í hálku og snjóakstri. Þau eru úr vönduðu gúmmí sem grípur vel og þau valda lágmarks loftmengun.

Loftbóludekk:
Loftbóludekkin eru mikið skorin, mjúk og með stóran snertiflöt. Þau eru sögð hljóðlát og hagkvæm. Í hálku sjúga loftbólurnar vatn upp úr ísnum og snjónum sem verður þurrari og stamari auk þess sem það myndast sogkraftur.

Harðkornadekk:
Harðkornin (silicium carbide og aluminiumoxide) í dekkjunum eru sögð gefa gott veggrip í hálku og bleytu og vera rásföst, hljóðlát og valda margfalt minna vegsliti en nagladekk. Umfelgun er ekki nauðsynleg.

Harðskeljadekk:
Harðskeljadekk valda minna vegsliti og er gúmmíblandan sögð grípa eins og sogskál. Talin góð við hemlun og í beygjum og eru hljóðlát. Valhnetuskeljabrot eru notuð í þessi dekk.

Heilsárs vetrardekk:
Heilsársdekk eiga að vera vandaðir hjólbarðar með góðu heilsárs munstri. Hægt er að fá dekkin með mismunandi skurði.

Visthæfir hjólbarðar:
Nagladekk geta ekki fengið norræna umhverfismerkið Svaninn. Ónegld dekk sem eru laus við eitraðar úrgangsolíublöndur á slitflötum, uppfylla kröfur um lágt viðnám, valda minni hávaða og eru framleidd í verksmiðjum sem uppfylla ákveðnar kröfur hvað umhverfismál snertir eru visthæf.

Dekkjasokkur:
Dekkjasokkur er dekkjahlíf úr pólíester-þráðum með teygjuefni á endunum sem gerir það að verkum að það er auðvelt að setja hann á. Aðeins þarf að renna dekkjasokk yfir drifhjólin og bifreiðin er komin með gott grip í snjó og hálku! (www.fib.is)

Birt:
19. október 2011
Tilvitnun:
Umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkur „Nagladekk, nei takk!“, Náttúran.is: 19. október 2011 URL: http://nature.is/d/2008/10/20/nagladekk-nei-takk/ [Skoðað:28. mars 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 20. október 2008
breytt: 19. október 2011

Skilaboð: