Hún er 3. Maí og skal vera haldin í minningu þess, að þá hafi Helena, móðir Konstantínusar mikla keisara, fyndið krossinn Krists með nöglunum í á Hausaskeljastað og látið reisa hann upp á Golgata árið 320. Önnur helgisögn er um krossmessu á haust.

Krossmessan skipaði talsverðan sess í hugum fólks lengi fram eftir öldum, því að fram til 1700 var hún jafnframt vinnuhjúaskildagi, þ.e. sá dagur ársins sem ráðning vinnufólks miðaðist við frá fornu fari. Þegar tímatalsbreytingin var gerð árið 1700 og klipptir voru 11 dagar úr árinu, svo að 28. nóvember kom í stað 17. nóvember, þá færðist vinnuhjúaskildaginn frá 3. til 14. maí, því að ella hefðu húsbændur þóst eiga inni 11 daga hjá vinnuhjúunum.

Vegna vinnuhjúaskildagans var talað um krossmessuár sem ráðningartíma. Sagt var það væri hefð, að hjúið mætti ekki borða miðdegismat hjá fyrri húsbændum, ef það ætlaði að skipta um vist, því þá “æti það sig inn í vistina” á nýjan leik og væri orðið skyldugt til að vera um kyrrt og fara hvergi, ef húsráðendur vildu. Því hafi húsbændur stundum hyllst til að hafa freistandi matarskammt á krossmessu. En ósagt skal látið, hvort þessu hafi almennt verið framfylgt í raun.

Birt:
3. maí 2013
Höfundur:
Árni Björnsson
Tilvitnun:
Árni Björnsson „Krossmessa á vori“, Náttúran.is: 3. maí 2013 URL: http://nature.is/d/2007/04/11/krossmessa-vori/ [Skoðað:28. mars 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 11. apríl 2007
breytt: 1. janúar 2013

Skilaboð: