Heybaggar í KjósLaugardaginn 17.  júlí næstkomandi verður Kjósin opnuð fyrir gestum og gangandi undir kjörorðinu Kátt í Kjós og er þetta í fjórða  sinn sem efnt er til slíkrar hátíðar í sveitarfélaginu.  Á undanförnum árum hafa mörg þúsund manns heimsótt Kjósina heim á þennan „Kjósardag“, sem vakið hefur verðskuldaða athygli og tekist með miklum ágætum.

Með hátíðinni Kátt í Kjós vilja Kjósverjar gefa öllum þeim sem áhuga hafa tækifæri á að koma í heimsókn í sveitarfélagið til þess að skoða sveitina og það sem falleg náttúran og íbúar sveitarfélagsins hafa uppá að bjóða.  Markmið með hátíðinni er meðal annars að vekja athygli á þeirri atvinnustarfsemi sem fram fer í Kjósinni og þeim miklu tækifærum sem þar felast. Margir Kjósverjar eru  tilbúnir að opna býlin sín og bjóða gestum heim og kynna starfsemi sína og starfsvettvang.

Kjósin er austan og sunnan Hvalfjarðar. Hreppamörk Kjósarhrepps og Hvalfjarðar­ sveitar liggja um Botnsá, Hvalvatn og Botnssúlur. Að austan liggja mörkin á móti Þingvallasveit um Botnssúlur; Sýsluhólma í Laxá ofan Þórufoss og Esju. Mörkin á móti Kjalarnesi liggja um Esju, Kerlingargil og Kiðafellsá.Kjósin er um 300 ferkílómetrar að stærð. Landbúnaður er aðalatvinnugreinin í hreppn­ um. Um 600 sumarhús eru í Kjósarhreppi og íbúðarhúsum fjölgar ört og er sótt vinna frá þeim mörgum hverjum utan sveitar.

Sveitamarkaður í Félagsgarði

Í Félagsgarði, félagsheimili Ungmennafélagsins Drengs, er sveitamarkaður og kynning á ýmsum framleiðsluvörum. Meðal þess sem er í boði er prjónavara, handverk, list­ munir, sultur og margt fleira. Matarbúrið á Hálsi, Sogn og Bangsi á Heiðabæ verða með vörur sínar á boðstólum og Kvenfélag Kjósarhrepps er með veitingasölu. Sérstakt borð verður þar sem börn geta komið og selt leikföngin sín.
Á útisvæðinu verða hestar frá Þorláksstöðum, heimaln­ingar, geitur, hvolpar og ýmis­legt annað.
Í sölubásum er ekki tekið við kortum en hægt verður að taka út reiðufé á staðnum.
Opið frá kl. 12:00-17:00. s: 899 7052, oddviti@kjos.is.

Sjá allt sem um er að vera á Kátt í Kjós hér að neðan:

Samansafnið á Kiðafelli

Á fjósloftinu á Kiðafelli hefur verið komið fyrir fjölbreyttu safni gamalla muna í viðeigandi umhverfi. Þar má m.a. skoða gamlar búvélar og bifreiðar, stríðsminjar, sjávar­ og landbúnaðarminjar, ásamt fjölmörgu öðru sem haldið hefur verið til haga frá fyrri tímum. Allir ættu að koma auga á eitthvað áhugavert í safninu og þar eru margir hlutir sem koma gestum skemmtilega á óvart svo sem einn elsti ísskápur landsins, áfengisbók fyrir karla frá skömmtunarárunum og hvalskurðarhnífur Halldórs Blöndals. Safninu hefur áskotnast ónotað hermannatjald frá 1942 sem verður stillt upp ásamt öðrum herminjum. Nýjasti gripur safns­ ins er sennilega elsta rafmagnsþvottavél landsins, af þýskri gerð, þar sem blandað er saman fornri uppbyggingu trépotta og frum­ legum rafmótor. Safnið er almennt opið eftir samkomulagi og er vinsæll viðkomustaður í óvissu­ og starfsmannaferðum.
Opið frá kl. 13:00-17:00, s: 566 7051, 896 6984, kidafell@emax.is.

Kaffi Kjós

Kaffi Kjós er þjónustumiðstöð staðsett í suðurhlíð Meðalfells, með góðu útsýni yfir Meðalfellsvatn, í raunverulegu sveita- umhverfi. Þar eru margir möguleikar til skemmtilegrar útivistar og afþreyingar. Kaffi Kjós var opnað 1998 og hafa sömu aðilar rekið staðinn síðan. Þar er lögð áhersla á að fólk geti notið veitinga í heimilislegu andrúmslofti. Á Kaffi Kjós er unnið eftir umhverfisstefnu.
Þann 17. júlí 2010 verður hoppukastali við Kaffi Kjós og fleira skemmtilegt.
Opið frá kl. 12:00-22:00, s: 566 8099, 897 2219 kaffikjos@kaffikjos.is, www.kaffikjos.is.

Hurðarbak

Vorið 2002 vígði séra Pétur Þorsteinsson, prestur Óháða safnaðarins í Reykjavík, sérstakan grafreit fyrir húsdýr í landi Hurðarbaks í Kjós. Dýragrafreiturinn er sá fyrsti sinnar tegund­ ar hér á landi. Garðurinn er staðsettur í fallegu og vinalegu um­ hverfi við Laxá í Kjós. Á undanförnum árum hafa dýravinir í sívaxandi mæli óskað eftir legstað í garðinum fyrir látin dýr. Þar hvíla nú á þriðja hundrað dýr, stór og smá, hvert í sérstökum reit og geta eigendur þeirra komið og vitjað þeirra hvenær sem er. Meðal þeirra sem þar hvíla er hið landsþekkta naut Guttormur, sem ól aldur sinn Húsdýragarðinum. Þar eru einnig horfnir gæðingar, ásamt þeim dýrum sem fólk hefur haft inni á heimilum sínum. Gestir eru boðnir innilega velkomir að koma og skoða garðinn. Umsjónarmaður og eigandi garðsins er Guðný G. Ívars­ dóttir, Flekkudal.
S: 566 7052, 899 7052, gudnyi@simnet.is.

Reynivellir

Lítið skírnarfat – löng saga
Séra Gunnar Kristjánsson sóknarprestur flytur erindi um skírnarfatið í Reynivallakirkju, uppruna þess og sögu.
Skírnarfatið er nátengt miklum atburði í sögu Kjósarinnar; það tengist sögu byggðarinnar, nánast hverri fjölskyldu beint eða óbeint, einstökum persónum, samskiptum við útlönd auk þess sem það leiðir hugann að mikilvægu hlutverki skírnarinnar. Hver gerði skálina, hver gaf hana, hvaða barn var fyrst skírt við hana? Margar áhugaverðar spurningar vakna. Jafnframt fá kirkjugestir fróðleik um kirkjuna sem varð 150 ára á s.l. ári.
Erindið hefst kl. 16:00 í Reynivallakirkju.

Eyrarkot

Eyrarkot er ferðaþjónustubær ofan við Hvalfjarðareyri og þar er hægt að leigja ýmist stök herbergi, húsið eða salinn. Aðstaða er fyrir 30-40 manns í salnum og húsið tekur 10 í gistingu. Á Kátt í Kjós verður mikið fjör og trall. Boðið verður uppá ferðir á hey­ vagni fyrir börn og fullorðna og er ferðin á 100 kr, keyrt verður niður í fjöru. Ragnhildur Jónsdóttir verður þar með álfaspilin sín og kynnir bókina Galdratákn guðanna, rúnabók eftir Jóhönnu Harðardóttur. Handverk eftir Sigurbjörn á Kiðafelli er til sölu. Myndlistarkonan Kristín Guðmundsdóttir sýnir verk sín og er það sölusýning. Strákarnir í hljómsveitinni Múgsefjun koma og spila á milli klukkan fjögur og fimm. Rjúkandi kaffi og meðlæti selt á staðnum.
Opið frá kl. 13-17, s: 692 3025, begga@emax.is.

Meðalfellsvatn

Veiðikortið og Veiðifélagið Hreggnasi, sem er leigutaki vatnasvæðis Laxár, bjóða frítt í veiði í Meðalfellsvatni á milli kl. 13 og 17. Þeir sem vilja nýta sér það geta kynnt sér upplýsingar um vatnið á veidikortid.is.
Meðalfellsvatn er 2 km2 að flatarmáli. Mesta dýpi vatnsins er tæplega 19 m og meðaldýpi er 4,4 m. Dýpsti hluti þess er að austanverðu en meginhluti þess er tiltölulega grunnur (2­4 m). Vatnasvið Meðalfellsvatns er um 39 km2. Í það sunnanvert renna smáárnar Flekkudalsá með upptök í Flekkudal í norðanverðri Esju og Sandsá með upptök í norðanverðum Móskarðshnjúkum. Úr Meðalfellsvatni norðvestanverðu fellur áin Bugða sem rennur í Laxá.
Frítt í veiði frá kl. 13:00-17:00, www.veidikortid.is.

Ásgarður

Myndin Liljur vallarins eftir Þorstein Jónsson verður sýnd kl. 13 og kl. 15 í Ásgarði en sögusvið myndarinnar er Kjósin. Í mynd­ inni er tekist á við stóru spurningarnar – um Guð, tilgang lífsins og dyggðirnar. Þorsteinn mun svara fyrirspurnum eftir sýning­ una kl. 13. Kjósarmyndin frá 1952 verður svo sýnd kl. 16.30. Í Ásgarði verða gamlar bækur úr bókasafni hreppsins til sölu og kosta allar bækur 100 krónur. Hægt verður að skoða gamlar myndir frá skólaárunum og sögusýningu um Reynivallakirkju sem sett var upp í tilefni af 150 ára afmæli hennar árið 2009, ásamt sýningu um sögu Kvenfélags Kjósarhrepps. Kvenfélag Kjósarhrepps verður með kaffi og kleinur til sölu.
Opið frá kl. 13:00-17:00.

Neðri Háls

Á Neðra Hálsi er stunduð lífræn mjólkurframleiðsla. Ábúend- ur eru Kristján Oddsson og Dóra Ruf. Þau stofnuðu einnig fyrirtækið Biobú ehf í Reykjavík, sem er einskonar framlenging á búinu. Í Biobúi fer fram fullvinnsla á lífrænni mjólk frá Neðra Hálsi, Búlandi í Landeyjum og Finnastöðum í Eyjafjarðarsveit sem nýlega hefur komið til samstarfs. Neðri Háls er einnig þátt­ takandi í verkefninu Beint frá býli. Boðið verður upp á fræðslu um lífrænan landbúnað og gefið smakk á fullunnum lífrænum mjólkurafurðum svo sem jógúrt, skyri, smjöri, mjólkurís og sorbet ís. Allt þetta verður kryddað með góðri undirliggjandi músík. Þarna gefst gott tækifæri til að setja sig í lífrænan gír með því að hlusta, þefa og smakka. Og munið: Allt lífrænt og kaffið líka og þar fer nú að muna um hollustuna!
Opið frá kl. 13:00-17:00, s: 566 7035, 894 9567 kristján@biobu.is, www.biobu.is.
Sjá Neðri Háls hér á Grænum síðum.

Hvammsvík

Í Hvammsvík er afbragðs aðstaða til útivistar fyrir alla fjöl­ skylduna. Þar er níu holu golfvöllur, hæfilega erfiður fyrir byrj- endur og lengra komna. Fyrir þá sem vilja renna fyrir fisk er veiðivatn í Hvammsvíkinni, blanda af ferskvatni og sjó. Í vatnið er sleppt regnbogasilungi og veiðimenn geta keypt 5 fiska kvóta sem nota má til 20. september 2010.
Fyrirtaks aðstaða er á svæðinu fyrir fjölskyldur sem og starfs­ mannahópa en í Hvammsvík er tjaldsvæði, fullbúin grillaðstaða og aðstaða til að matast, jafnt innan dyra sem utan. Góð aðstaða er til að stunda kajaksiglingar í sjó og geta hópar pantað ferð ásamt leiðsögumanni með nokkurra daga fyrirvara. Í fjörunni er mikið um krækling og fuglalífið er einstakt. ÍTR sér um rekstur á svæðinu í Hvammsvík sumarið 2010. Þann 17. júlí verður frítt í golf og 20% afsláttur af veiðinni í vatninu.
S: 695 5123, www.hvammsvik.is, hvammsvik@itr.is.

Ku.is er nýtt fyrirtæki á markaðnum sem sérhæfir sig í fram­ leiðslu mygluosta. Fyrirtækið er rekið af fjölskyldunni að Eyjum II í Kjós og aðilum tengdum henni. Í Félagsgarði mun fyrirtækið m.a. kynna nýjan hvítmygluost sem hefur fengið nafnið Ljúf­ lingur. Á boðstólum verður einnig nýjung sem ekki hefur verið framleidd hérlendis áður. Verið velkomin að koma og smakka!
S: 412 3100 / 825 6502, www.ku.is, ku@ku.is.

Útivistarsvæði í Kjós

Mikil og góð útivistarsvæði frá náttúrunnar hendi eru í Kjósinni. Fjörur eru aðgengilegar og Hvalfjarðar­ eyrin er vinsæll útivistarstaður. Þá er Meðalfellsvatn vinsælt veiðivatn og geta allir fengið keypt veiðileyfi í það. Laxá og Bugða eru meðal bestu veiðiáa landsins, enda umsetnar og kræklingafjörur eru með besta móti í Hvalfirði. Í Hvammsvík er öflug þjónusta við útivistar­ fólk og á Hvítanesi eru áhugaverðar herminjar sem hægt er að ganga um. Á jörðinni Fossá hefur verið stunduð skógrækt um árabil og er nú frjáls aðgangur að því svæði til útiveru í frábæru umhverfi. Einnig hefur Brynjudalurinn löngum heillað til útvistar en þar er mikill skógur og Botnssúlur rismiklar í næsta nágrenni. Handan við Hríshálsinn blasir Glymur við og Hvalvatn er þar fyrir ofan. Ekki má svo gleyma gönguleiðinni um Leggjarbrjót á Þingvöll sem er vinsæl gönguleið og fjöl­ farin.
Gefið hefur verið út mynd­ kort af Kjósarhreppi sem sýnir göngu­ og reiðleiðir ásamt öllum helstu örnefnum, bæjum og þjónustuaðilum í hreppnum. Fróðleikur er á bakhlið korts­ ins um helstu sögu­ og nátt­ úrustaði, bæði á íslensku og ensku.
Þá er einnig fáanlegt kort og leiðarlýsing um hringleiðina um Hvalfjörð. Mikill fróðleikur er á bakhlið kortsins sem er ómissandi þeim sem vilja skoða fjörðinn og fræðast um sögu hans.
Kortin eru fáanleg í Ásgarði.

Heyrúlluskreytingar

Íslandsmeistaramót Poulsen í heyrúlluskreytingum
Á Laxárnestúninu neðan við Félagsgarð, á milli kl. 13.30 og 15.30, gefst áhugasömum kostur á að taka þátt í keppni um að skreyta plastaðar heyrúllur með frjálsri aðferð. (Ath. ekki má gata rúll­ urnar). Verslunin Poulsen styrkir keppnina en verslunin er með fjölbreytt úrval af landbúnaðarvörum og er uppáhaldsverslun hvers bónda. Hver þátttakandi fær eina rúllu til að skreyta að eigin vilja. Þátttakendur fá málningarsprey en geta líka komið með sína eigin liti eða annað efni til skreytingar. Skráning fer fram á staðnum en þátttakendur skrá nöfn sín á þátttökublað og fá úthlutað númeri sem þarf að auðkenna viðkomandi hey­ rúllu. Best skreyttu rúllurnar verða síðan valdar kl. 16.00 og nöfn vinningshafa birt á kjos.is.
Umsjón hafa Jóna og Kristín í Miðbúð, jonathors@simnet.is.

Sjá nánar á www.kjos.is.

Ljósmynd: Heyrúlluskreytingar á Kátt í Kjós í fyrra, Guðrún Tryggvadóttir.

Birt:
15. júlí 2010
Höfundur:
Kátt í Kjós
Tilvitnun:
Kátt í Kjós „Kátt í Kjós“, Náttúran.is: 15. júlí 2010 URL: http://nature.is/d/2010/07/15/katt-i-kjos/ [Skoðað:19. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 17. júlí 2010

Skilaboð: