Spínat þarf að fá góða vökvun þegar það er að vaxa og má ekki standa of þétt. Það inniheldur mikið af vítamínum og járni en líka oxalsýru og hún þykir ekki eins æskileg. Þess vegna er spínatið kreist vel eftir að það hefur verið soðið. Það er samt frábærlega gott hrátt og með dökkum púðursykri er það sælgæti. Á gróskumikil spínatblöð er sett ögn af sykri, svo er laufinu pakkað saman í vöndul og bitið í. Þegar blöðin eru stór og safamikil er þetta fínn forréttur og börnunum finnst gaman að honum. Sykurinn vinnur á móti sýrunni í blöðunum. Spínatfræið er hart og því lengi að spíra og það má leggja fræin í bleyti í sólarhring áður en sáð er. Þetta ráð kemur frá þeim Sauðlauksdalsmágum og mér sýnist þeir hafi sjálfir reynt að það væri betra. Nokkrar spínatuppskriftir:

Sæt spínatpæja
Pæjuskel óbökuð
500 g spínat
1/2 l mjólk
100 g sykur
2 msk hveiti
4 egg
Sítrónusafi og svolítið af rifnum berki
Sykraðir ávextir úr pakka tilbúnir í smábitum

Breiðið úr pæjudeiginu með kefli eða fingrunum og geymið svolítið fyrir renninga ef vill. Sjóðið spínatið, kreistið á bretti og síið vel frá allan vökva. Saxið mjög fínt. Sláið saman eggjunum, hveitinu og sykrinum og vætið í með volgri mjólkinni. Bætið í spínatinu, sítrónuberkinum og sykruðum ávöxtunum. Hellið þessu í pæjuskelina og setjið renningana yfir. Bakið í 10 mínútur í heitum ofni og síðan á ögn lægri hita þangað til mjólkurbúðingurinn er hlaupinn. Bökunardiskurinn þarf að vera nokkuð stór, stærri en 22 cm í þvermál.

Spínatbollur
500 g spínat
100 g ný basilíka
350 g ríkottaostur, ystingur eða rjómaostur
50 g rifinn parmesanostur
3 egg
3 msk hveiti (uppskriftin gerir ráð fyrir hvítu hveiti til að auka samloðun)
1 tsk múskat salt og svartur pipar
Spínatið er soðið í 4 mínútur og basilíkunni bætt við þegar hálfsoðið er. Látið undir bunu af köldu vatni og kreistið vökvann vandlega úr. Setjið síðan allt efnið í blandara og látið maukið að því búnu hvílast 1 klst. í kæli. Setjið í sprautupoka með stóru opi (plastpoki, sem hornið hefur verið klippt af, dugar) og kreistið út langa sívalninga sem eru skornir í hæfilega bita. Setjið upp stóran pott með sjóðandi vatni og sjóðið spínatbitana í nokk

Spínatjafningur
Gamli góði spínatjafningurinn stendur alltaf fyrir sínu. Uppskriftin er sú sama og fyrir njólajafning hér að framan.

Mynd: Spínat úr Eldhúsgarðinum í Yin Yang merki, jörð og loft. 
Úr Ætigarðinum - handbók grasnytjungsins, eftir Hildi Hákonardóttur. Bókin er fáanleg hér á Náttúrumarkaðinum.

Birt:
15. júlí 2013
Tilvitnun:
Hildur Hákonardóttir „Spínat“, Náttúran.is: 15. júlí 2013 URL: http://nature.is/d/2007/11/07/spnat/ [Skoðað:28. mars 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 7. nóvember 2007
breytt: 1. janúar 2013

Skilaboð: