Veitingastaðurinn Gló hefur tekið til starfa í Listhúsinu í Laugardal, Engjateig 17-19. Aðaláhersla staðarins verður á lífræna næringu; fæðu sem er í senn nærandi, seðjandi, frískandi og fær fólk til að glóa. Það eru hjónin Guðni Gunnarsson og Guðlaug Pétursdóttir sem eru eigendur staðarins og er hann partur af Rope yoga setrinu sem opnaði í byrjun árs."Við viljum að fólk komi á veitingastaðinn og fari þaðan eins og það fer úr Rope yoga tímunum, algjörlega fullnært á líkama og sál," segir Guðni og bætir við að hugmyndafræðin á bak við veitingastaðinn sé sú sama og á bak við rope yogað, þ.e.a.s, að vekja fólk til vitundar og taka ábyrgð á eigin tilvist. Hann vill sjá fólk koma á veitingastaðinn, ekki til þess að borða eða éta, heldur til þess að næra sig. "Næringin sem slík er ekki nóg heldur verður fólk að hafa réttan ásetning með henni. Þú ert það sem þú borðar, hugarfarslega, tilfinningalega og líkamlega. Okkar ásetningur og framsetning verður í tengslum við þetta, sem gerir Gló að öðruvísi veitingarstað."

Kærleiksrík fæða Matseðill veitingastaðarins er fjölbreyttur og samanstendur hann af grænmeti, ávöxtum, kornfæðu, léttri kjötvöru og fiski. Mikil áhersla er lögð á skjóta afgreiðslu en staðurinn opnar eldsnemma á morgnana og verður til að byrja með opinn til kl. 20:00 á kvöldin. Þannig er hægt að byrja daginn á Gló með lífrænum kaffi- eða tesopa, hafragraut, lífrænum söfum og hveitigrasi. Í hádeginu er boðið upp á tvo aðalrétti og náttúrulegar súpur verða alltaf á boðstólum en veitingastaðurinn er í samstarfi við Örlyg Ólafsson hjá Súpubarnum. Einnig verður boðið upp á vefjur, hráfæði og ýmsa smárétti. "Við ætlum að bjóða upp á virkilega holla og kærleiksríka næringu. Allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi því við ætlum ekki að vera með neinar öfgar í framleiðslunni, ekki nema þá hvað varðar lífræna hlutann og kærleikann," segir Guðni sem einnig mun bjóða upp á ráðgjöf og stuðning sem felst í því að fólk taki ábyrgð á því hvað það er að næra.

Birt:
30. júlí 2007
Höfundur:
Rope Yoga setrið
Tilvitnun:
Rope Yoga setrið „Gló - Nýr veitingastaður í Listhúsinu“, Náttúran.is: 30. júlí 2007 URL: http://nature.is/d/2007/07/30/gl-nr-veitingastaur-listhsinu/ [Skoðað:25. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 9. ágúst 2011

Skilaboð: