Á undanförnum vikum hefur orðið æ skýrar að landeigendur við Þjórsá hafa í raun verið settir í þá óþægilegu stöðu að „annað hvort semja eða missa allt sitt“ því annars muni Landsvirkjun einfaldlega taka land þeirra eignarnámi. Landsvirkjun á yfir 90% vatnsréttinda í Þjórsá og hefur því í augum viðsemjenda sinna einfaldlega tromp á hendi. Því hafa líka flestir undirritað viljayfirlýsingu um að þeir muni semja. Þó ekki ábúendur Skálmholtshrauns sem ofboðið hefur gersamlega vinnubrögð Landsvirkjunar og neita alfarið að semja, komi ekki til frekari jarðfræðirannsóknir á svæðinu.

Útspil Landsvirkunar með tilkynningu um niðurstöður áhættumats „sem léttvægar“ í Sjónvarpsfréttum á sunnudagskvöldið voru ekki sannfærandi í augum landeiganda við Þjórsá. Niðurstöður sem að þeirra mati eiga að gefa til kynna að stíflurof myndi ekki hafa afdrifaríkari afleiðingar en náttúruleg flóð í ánni. VST kynnti áhættumatið nú í kvöld á íbúafundi í Flóanum.

Atli Gíslason lögmaður og þingmaður Vinstri grænna á Suðurlandi hefur nú bent á að samkvæmt 71. gr. stjórnarskrárinnar er eignarrétturinn friðhelgur og engan má skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji, lagafyrirmæli komi til og fullt verð.
Eins bendir Atli á að þegar Titanfélagið keypti vatnsréttindin í Þjórsá var í gildi – og er reyndar enn – sú grundvallarregla sem gilt hefur á Íslandi allt frá því er landið var numið, það er að segja að “vötn öll skulu renna sem að fornu hafa runnið”.

Nokkrir þingmenn Samfylkingarinnar hafa ennfremur lýst því yfir að ekki muni koma til eignarnáms

Hér virðist því skipta mestu máli að meta hvort almenningsþörf sé fyrir hendi. Við mat á því verður að gæta meðalhófs og jafnræðis og augljóst að persónulegir hagsmunir einstakra manna og fyrirtækja eða fjárþörf ríkis og sveitarfélaga er ekki næg ástæða til eignarnáms.

Ef Landsvirkjun hyggst láta reyna á hvort að eignarnám muni fela í sér brot á grundvallarmannréttindum er fyrirtækið um leið að stilla íbúum við Þjórsá upp við vegg. Íbúarnir munu þó ef dæma má af baráttukraftinum hingað til ekki gefast upp og augljóst virðist vera að einhver þeirra muni leita til Mannréttindadómstóls Evrópu, gangi Landsvirkjun alla leið og láti reyna á eignarnámsréttinn.
Birt:
19. október 2007
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Storkar stjórnarskráin Landsvirkjun?“, Náttúran.is: 19. október 2007 URL: http://nature.is/d/2007/10/19/storkar-stjrnarskr-landsvirkjun/ [Skoðað:20. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 21. október 2007

Skilaboð: