Gámaþjónustan hf. hefur sett út á nýjung í sorphirðu og endurvinnslu í Reykjavík.

Fyrir rétt rúmri viku síðan fór Reykjavíkurborg að afgreiða pappírstunnur, bláar tunnur í sömu stærð og venjulegar ruslatunnur en sérstaklega ætlaðar fyrir dagblöð, tímarit, markpóst og annan prentpappír. Um er að ræða safntunnur fyrir pappír af ýmsum gerðum til endurvinnslu. Pappír er auðlind en ekki drasl og með því að einfalda það fyrir borgarana að koma frá sér pappír á auðveldan hátt var blá tunnan tekin í notkun.

Mikil ásókn hefur verið í tunnurnar og biðtími allt undir mánuður. Árgjald er kr. 7.400 og tunnan er sótt mánaðarlega.

Þetta sér Gámaþjónustan hf. sem ógnun við sína starfsemi en Gámaþjónustan hefur haft „Endurvinnslutunnuna“ nú í tæp tvö ár við góðar undirtektir. Í tunnuna má setja öll dagblöð og tímarit, bylgjupappa, málma (niðursuðudósir, lok af sultukrukkum, ekki bílvélar!) í plastpoka, fernur í plastpoka og plastbrúsa í plastpoka, allt í sömu tunnuna. Mánaðargjlad er 990 kr. og losað mánaðarlega. Viðskiptın blómstra með tunnuna. Auk ágóða fyrir að þjónusta tunnuna við íbúa, selur Gámaþjónustan innihaldið til endurvinnslu. 

Íslenska Gámafélagði kom síðan með Grænu tunnuna á markað fyrir skemmstu og bíður þjónustu í höfuðborgarsvæðinu og í sveitarfélögum úti á landi s.s. Selfossi og Hveragerði, Akureyri og víðar. Í Grænu tunnuna á að setja dagblöð, tímarit, bæklinga, pappa, mjólkurfernur, plastumbúðir, niðursuðudósir og minni málmhluti. Tunnunum hefur hvarvetna verið vel tekið og ekkert lát á pöntunum. Þjónusta við tunnuna kostar 950 kr. mánaðarlega.

Það má í raun spyrja sig hvort að þjónustugjald á endurvinnslutunnur sé í raun réttlætanlegt því verið er að safna verðmætum til að selja áfram. Viða úti í heimi er flokkað sorp sótt án endurgjalds t.a.m. í Þýskalandi og á Norðurlöndunum.

Birt:
29. ágúst 2007
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Endurvinnslutunnur, Grænar tunnur og Bláar tunnur berjast um markaðinn“, Náttúran.is: 29. ágúst 2007 URL: http://nature.is/d/2007/08/29/endurvinnslutunnur-grnar-tunnur-og-blar-tunnur-ber/ [Skoðað:19. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 30. ágúst 2007

Skilaboð: