Nýr borgarstjóri, Hanna Birna Kristjánsdóttir, fullyrti í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins í gær að Bitruvirkjun muni "renn[a] styrkari stoðir undir samfélag og efnahagsumhverfi okkar."

Þessi fullyrðing borgarstjórans gengur þvert gegn niðurstöðum Skipulagsstofnunar um umhverfisáhrif Bitruvirkjunar frá 19. maí 2008. Þar segir á bls. 36:

Áhrif á jarðhitaauðlindina. Skipulagsstofnun telur í ljósi framlagðra gagna mikla óvissu vera um hver verði áhrif allt að 135 MW virkjunar við Bitru á jarðhitaauðlindina. Það sama gildir um hugsanleg samlegðaráhrif hennar með Nesjavallavirkjun, Hellisheiðarvirkjun og fyrirhugaðri Hverahlíðarvirkjun.

Í umsögn Orkustofnunar kemur fram það mat að of mikil óvissa sé fyrir hendi um vinnslugetu virkjunarsvæðis Bitruvirkjunar og Hverahlíðarvirkjunar, m.a. um tengsl þeirra við núverandi virkjunarsvæði, til að hægt sé að leggja mat á hvort þau áform um þessar virkjanir, sem Orkuveita Reykjavíkur leggi fram, fái staðist. Til þess að geta lagt mat á áhrif allt að 135 MW virkjunar við Bitru og samlegðaráhrif hennar. Sjá álit Skipulagsstofnunar um Bitruvirkjun.

Með öðrum orðum, þvert á fullyrðingar Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, telja fagaðilar telja að mikil óvissa ríki um vinnslugetu Bitruvirkjunar; um hvort virkjunaráform fái staðist.  Ennfremur er það niðurstaða Skipulagsstofnunar, að bygging Bitruvirkjunar sé ekki ásættanleg vegna verulegra neikvæðra og óafturkræfra áhrifa á landslag, útivist og ferðaþjónustu. Um er að ræða lítt snortið, fjölsótt útivistarsvæði í nágrenni þéttbýlis/höfuðborgarsvæðisins og býr svæðið yfir stórbrotnu landslagi sem m.a. einkennist af fjölbreyttri hveravirkni. Fyrirhuguð Bitruvirkjun myndi breyta landslagsásýnd þessa lítt raskaða svæðis í ásýnd iðnaðarsvæðis.

Hafi Hanna Birna Kristjánsdóttir ekki undir höndum nýrri og áreiðanlegri upplýsingar en fram koma í áliti Skipulagsstofnunar frá í vor er ljóst að Bitruvirkjun mun ekki renna styrkari stoðum undir samfélag og efnahagsumhverfi okkar. Fullyrðing Hönnu Birnu stenst ekki.

Náttúruverndarsamtök Íslands munu styðja baráttu gegn Bitruvirkjun og þeim háskalegu skammtímasjónarmiðum sem birtast í orðum Hönnu Birnu Kristjánsdóttur.
Birt:
22. ágúst 2008
Höfundur:
Árni Finnsson
Tilvitnun:
Árni Finnsson „Fullyrðing borgarstjóra um Bitruvirkjun stenst ekki“, Náttúran.is: 22. ágúst 2008 URL: http://nature.is/d/2008/08/22/fullyroing-borgarstjora-um-bitruvirkjun-stenst-ekk/ [Skoðað:20. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: