UOOR styrkþegarÍ dag veitti Umhverfis- og orkurannsóknasjóður Orkuveitu Reykjavíkur (UOOR) styrki til liðlega 30 rannsóknarverkefna á starfssviði sjóðsins. Jarðvísindaverkefni eru áberandi en einnig rannsóknir á gróðurfari og upptöku visthæfra orkugjafa í samgöngum. Samtals nema styrkirnir rúmum 45 milljónum króna.
Umhverfis- og orkurannsóknasjóðurinn var stofnaður 2006 og voru fyrstu styrkirnir voru veittir ári síðar. Úthlutunin í dag var því sú fjórða í röðinni og tilkynnti Hjörleifur B. Kvaran, forstjóri OR, um ráðstöfun styrkfjárins.
Samhliða úthlutuninni fór fram ráðstefna þar sem kynntar voru niðurstöður verkefna fyrri ára. Ráðstefnan fór fram í ráðstefnusal höfuðstöðva OR og var hún vel sótt. Átta erindi voru flutt og á þriðja tug veggspjalda með rannsóknarniðurstöðum kynnt.

Vísindaráð UOOR skipa rektorar allra háskóla á Íslandi og stjórn hans þau Guðlaugur G. Sverrisson stjórnarformaður OR, Hjörleifur Kvaran forstjóri OR, Edda Lilja Sveinsdóttir, framkvæmdastjóri Orkuskólans REYST, Edda Sif Pind Aradóttir, efnaverkfræðingur og forðafræðingur, Kristján Kristjánsson, forstöðumaður rannsókna HR, Þorgeir Einarsson, deildarstjóri Verkfræðideildar OR og Valdimar K. Jónsson, prófessor emeritus.

Ný verkefni:

Jarðefnafræði og förgun brennisteinsvetnis í jarðhitakerfum
Verkefnisstjóri: Andri Stefánsson, dósent, Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands
Samspil brennisteinsríks vatns við basískt berg við 200-300°C verður kannað með það að markmiði að meta áhrif niðurrennslis brennisteinsvetnis í jarðhitakerfinu á Hellisheiði á efnafræði jarðhitavatns og ummyndunarsteinda.
Styrkur: 2.000.000,- kr.

Hagkvæmari nýting gufu í Hellisheiðarvirkjun
Verkefnisstjóri: Ari Ingimundarson, vélaverkfræðingur, Mannvit
Gert verður kvikt hermilíkan af gufuveitu Hellisheiðavirkjunar og rekstraraðferðir prófaðar með það fyrir augum að auka hagkvæmni við rekstur virkjunarinnar og draga úr núverandi losun á gufu við stýringu á inntaksýrýstingi hverfla.
Styrkur: 2.500.000,- kr.

Yfirborðsmeðhöndlun mannvirkja til að auðvelda gróðurframvindu
Verkefnisstjóri: Árni Bragason, sviðsstjóri, Efla verkfræðistofa
Markmið verkefnisins er að prófa yfirborðsmeðhöndlun á steinsteypu og stál/álflötum til að auka líkur á að gróður nái að festast og mynda þekju til lengri tíma án þess þó að hafa neikvæð áhrif á endingu mannvirkjanna.
Styrkur: 1.000.000,- kr.

PKD-nýrnasýki í laxfiskastofnum á Íslandi með áherslu á vatnasvið Elliðaáa – þróun, áhrif og útbreiðsla sjúkdómsins og tengsl við breyttar umhverfisaðstæður
Verkefnisstjóri: Árni Kristmundsson, fisksjúkdómafræðingur, Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum
Markmið verkefnisins er að kanna útbreiðslu og smittíma PKD í nokkrum vatnakerfum Íslands og rannsaka áhrif sýkilsins á viðgang laxfiskastofna hérlendis.
Styrkur: 1.500.000,- kr.

Mosaþembur: áhrif rasks og möguleikar á endurheimt
Verkefnisstjóri: Ása L. Aradóttir, prófessor, Landbúnaðarháskóli Íslands
Markmið þessa verkefnis er að auka þekkingu á áhrifum rasks á mosa, kanna endurvöxt algengra mosategunda eftir rask og prófa mismunandi leiðir til að hraða endurheimt mosa á röskuðum svæðum. 
Styrkur: 1.000.000,- kr.

Möguleikar og hagkvæmni þess að nýta lífrænan hluta skólps til metanframleiðslu á ökutæki
Verkefnisstjóri: Björn H. Halldórsson, framkvæmdastjóri, Metan hf.
Framleiðslukostnaður metans sem ökutækjaeldsneyti úr seyru verður metinn ásamt fjárhagslegri hagkvæmni slíkrar vinnslu.
Styrkur: 400.000,- kr.

Hönnunarlíkan fyrir hitaveitur
Verkefnisstjóri: Guðleifur M Kristmundsson, sérfræðingur, Orkuveita Reykjavíkur
Markmið þessa verkefnis er að þróa líkön fyrir hönnun á hitaveitukerfum sem taka á hverju hönnunarverkefni fyrir sig innan tiltölulega þröngs svæðis, t.d. hluta af íbúðahverfi eða einstaka íbúðagötu.
Styrkur: 1.000.000,- kr.

Econometric assessment of direct electricity export
Verkefnisstjóri: Guðmundur Freyr Úlfarsson, prófessor, Háskóli Íslands
Meginviðfangsefni þessa verkefnis er að hanna hagrannsóknalíkan sem metur áhrif þess og hagkvæmni að Ísland flytji raforku út eða kaupi raforku inn í gegnum neðansjávar háspennulínu til Bretlands.
Styrkur: 2.000.000,- kr.

Samanburðargreining á heildarkostnaði og umhverfisáhrifum orkubúskaps Íslands
Verkefnisstjóri: Guðmundur Freyr Úlfarsson, prófessor, Háskóli Íslands
Markmið þessa verkefnis er að gera heildrænan samanburð á orkugjöfum sem í boði eru á Íslandi í dag byggðan á heildarkostnaði og gróðurhúsaáhrifum þeirra.
Styrkur: 2.000.000,- kr.

Lífdísel með ljósvirkjandi örverum
Verkefnisstjóri: Guðmundur Óli Hreggviðsson, fagstjóri, Matís ohf.
Markmið verkefnisins er að einangra, rækta, vaxtarprófa og velja stofna ljóstillífandi örvera sem nýta gróðurhúsalofttegundir úr útblæstri jarðvarmavirkjana, þ.e. brennisteinsvetni og koldíoxíð, en skila nýtanlegum afurðum í lífdísel og fóður.
Styrkur: 1.000.000,- kr.

Potential energetic and economic advantages of lithium battery manufacturing using low grade heat and renewable energy in Iceland
Verkefnisstjóri: Guðrún Sævarsdóttir, lektor, Háskólinn í Reykjavík
Í þessari rannsókn er markmiðið að magngera efnahagslegan ávinning og breytingu á kolefnislosun við að setja upp framleiðslu á lithium járn fosfat (LiFePO4) verksmiðju á Íslandi í samanburði við Kína eða Evrópu þar sem orkugjafinn er jarðefnaeldsneyti.
Styrkur: 1.500.000,- kr.

Upplýsingatækni jarðhitagagna
Verkefnisstjóri: Gunnlaugur M. Einarsson, sérfræðingur í landrænum upplýsingum, Íslenskar orkurannsóknir
Markmið þessa verkefnis er að þróa umgjörð utan um þau gögn sem á einhvern hátt tengjast jarðhita.
Styrkur: 2.000.000,- kr.


Mat á árangri landbóta á jörðum OR í Grafningi
Verkefnisstjóri: Herdís Friðriksdóttir, sérfræðingur, Orkuveita Reykjavíkur
Markmið verkefnisins er að útbúa yfirlit yfir og meta árangur af uppgræðsluaðgerðum á löndum OR í Grafningi; á Nesjavöllum, Ölfusvatni og Úlfljótsvatni.
Styrkur: 1.500.000,- kr.

Lekt í jarðhitakerfi Hengils og tengsl hennar við þróað berg í berggrunninum
Verkefnisstjóri: Hjalti Franzson, fagsviðsstjóri, Íslenskar orkurannsóknir
Markmið verkefnisins er að kanna uppruna og þróun ísúrra og súrra jarðlaga er tengjast Nesjavöllum, Hellisheiði, Hverahlíð og Gráuhnúkum, meta tengsl þróaða bergsins og lektar í jarðhitakerfinu, meta hve stór hluti þróaða bergsins er í raun innskot og að kanna áhrif þróaða bergsins á jarðhitavökvann.
Styrkur: 1.500.000,- kr.

Innleiðing umhverfivottunarkerfa fyrir mannvirki í rekstri á Íslandi og hagkvæmisáhrif þeirra á orkunotkun og lífsferilskostnað (LCC)
Verkefnisstjóri: Kristveig Sigurðardóttir, skipulagsverkfræðingur, Almenna verkfræðistofan hf.
Markmið verkefnisins er að skilgreina viðmið til að auðvelda íslenskum hönnuðum og hagsmunaðilum að þróa í auknum mæli vistvænar áherslur við rekstur og viðhald þegar byggðra mannvirkja á Íslandi.
Styrkur: 500.000,- kr.

Kortlagning virkra jarðskjálftasprungna á Hengilssvæði og þróun nær-rauntíma sjálfvirkra, afstæðra staðsetninga á tilraunasvæðinu við Hengil/Ölfus
Verkefnisstjóri: Kristín S. Vogfjörð, rannsóknastjóri, Veðurstofa Íslands
Verkefnið miðar að því að kortleggja sprungur á Hengilssvæði með smáskjálftum og auka þannig við þann fjölda sprungna sem þegar hefur verið kortlagður á suðvesturlandi. Jafnframt að safna upp í gagnagrunn þegar kortlagðra sprungna, svo hægt sé að nýta eldri virkni til að gera kleift að kortleggja virkar sprungur sjálfvirkt í nær-rauntíma.
Styrkur: 1.300.000,- kr.

Forsendur sjálfvirkrar ákvarðanatöku – áreiðanleikamat á klasaspám og leiðréttingar á kerfisbundnum villum
Verkefnisstjóri: Ólafur Rögnvaldsson, framkvæmdastjóri, Reiknistofa í veðurfræði
Í þessu verkefni verður leitast við að skapa grundvöll fyrir aukinni hagkvæmni í rekstri Orkuveitunnar með bættum veðurspám. Leitast verður við að leiðrétta kerfisbundnar villur í rauntímaspám.
Styrkur: 2.200.000,- kr.

Hliðrunaráhrif á túlkun MT viðnámsmælinga á Hengilssvæðinu
Verkefnisstjóri: Páll Einarsson, prófessor, Háskóli Íslands
Verkefnið miðar að því að skoða aðferðir sem notaðar eru við viðnámsmælingar á jarðhitasvæðum á Íslandi og beita þeim á jarðhitakerfi Hengilsins. Notast verður við þrívíða líkanreikninga til að meta aðferðir til að leiðrétta hliðrunaráhrif í MT viðnámsmælingum.
Styrkur: 745.000,- kr.

SKELETON – gagnagrunnur í jarðefnafræði jarðhita
Verkefnisstjóri: Stefán Arnórsson, prófessor, Háskóli Íslands
Tilgangur SKELETON verkefnisins er að uppfæra gagnagrunna um efnavarmafræði og efnahvarfahraða, koma gögnunum á það form sem nýtist við líkangerð og jarðefnafræðilega reikninga og að bæta gagnagrunnana þar sem tilraunagögn skortir.
Styrkur: 1.500.000,- kr.
Efniseiginleikar borholusteypublandna með hliðsjón af þrýstings- og hitastigsbreytingum
Verkefnisstjóri: Sunna Ólafsdóttir Wallevik, verkefnisstjóri, Nýsköpunarmiðstöð Íslands
Verkefnið snýst um að endurhanna uppskrift á þeirri borholusteypublöndu sem notuð er til að fóðra jarðhitaborholur á Íslandi.
Styrkur: 500.000,- kr.

Bættar ákvarðanir við háhitaborun
Verkefnisstjóri: Sverrir Þórhallsson, deildarstjóri, Íslenskar orkurannsóknir
Smíðaður verður hugbúnaður til þess að meta líkur á árangri mismunandi úrræða í vandræðum borunar og reikna hagkvæmasta vongildi þeirra.
Styrkur: 1.500.000,- kr.

Framhaldsverkefni:


Hönnun bestaðra PID stýringa fyrir MIMO kerfi (mörg innmerki / mörg útmerki)
Verkefnisstjóri: Anna Soffía Hauksdóttir, prófessor, Háskóli Íslands
Hefðbundnar PID stýringar eru algengustu stýringar í iðnaði sem og við orkuver eins og á Nesjavöllum. Í þessu verkefni verður athygli beint að bestuðum PID stýringum fyrir MIMO kerfi, en slík bestun gæti haft beint hagnýtt gildi á Nesjavöllum sem og annars staðar þar sem PID stýringar fjölbreytukerfa (MIMO kerfa) eru fyrir hendi.
Styrkur: 1.700.000,- kr.

Hagrænt mat á þjónustu vistkerfa Heiðmerkur
Verkefnisstjóri: Brynhildur Davíðsdóttir, dósent, Háskóli Íslands
Áframhaldandi rannsókn á hagrænu verðgildi fjölþættrar þjónustu náttúrunnar með því að beita viðurkenndum hagrænum verðmatsaðferðum. Heiðmörkin er vettvangur rannsóknarinnar, enda er hún gott dæmi um svæði sem veitir fjölþætta þjónustu.
Styrkur: 1.000.000,- kr.

Heilsuveitur OR
Verkefnisstjóri: Guðrún Pétursdóttir, framkvæmdastjóri og dósent, Stofnun Sæmundar fróða, Háskóla Íslands
Markmið verkefnisins er að varpa ljósi á áhrif vatnsveitu, fráveitu, rafmagnsveitu og hitaveitu á lífshætti og heilsufar Reykvíkinga. Ekkert hefur haft viðlíka áhrif á heilbrigði og líf Reykvíkinga og Vatnsveitan, Fráveitan, Rafmagnsveitan og Hitaveitan.
Styrkur: 1.000.000,- kr.

Mælingar á yfirborði og yfirborðsbreytingum íslenskra jökla með leysimælingum
Verkefnisstjóri: Helgi Björnsson, vísindamaður, Jarðvísindastofnun Háskólans
Markmið verkefnisins er að vinna að nákvæmu landlíkan af helstu jöklum landsins, þ.e. Vatnajökli,
Hofsjökli, Langjökli, Mýrdalsjökli, Eyjafjallajökli og Drangajökli.
Styrkur: 2.000.000,- kr.


Náttúrulegt varmatap jarðhitasvæða og kæling bergs og kviku
Verkefnisstjóri: Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor, Jarðvísindastofnun Háskólans
Í verkefninu er lagt mat varmatap frá öflugum jarðhitasvæðum. Einkum er unnið að rannsókn á háhitasvæðunum í Kverkfjöllum þar sem jarðhiti hefur verið nokkuð stöðugur um áratugi, og í Grímsvötnum þar sem stórar breytingar hafa orðið á liðnum árum.
Styrkur: 1.500.000,- kr.

KolBjörk - endurheimt birkivistkerfa og kolefnisbinding
Verkefnisstjóri: Ólafur Arnalds, prófessor, Landbúnaðarháskóli Íslands
KOLBJÖRK er þriggja ára rannsóknarverkefni, sem miðar að því að lýsa þróun vistkerfa við endurheimt birkiskóga á uppblásnum auðnum á Suðurlandi.
Styrkur: 2.000.000,- kr.

Greining á útfellingum í varmaskiptum
Verkefnisstjóri: Ólafur Pétur Pálsson, prófessor og forseti Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideildar, Háskóli Íslands
Í þessu verkefni er markmiðið að þróa og betrumbæta aðferðir til að meta og greina breytingar
í varmaflutningi í varmaskiptum sem eru í rekstri, út frá rauntímamælingum á hita og streymi.
Styrkur: 2.000.000,- kr.

Rafakstur
Verkefnisstjóri: Páll Jensson, prófessor, Háskóli Íslands
Verkefnið felst í þróun fjölþátta líkans sem nær yfir sem flesta áhrifaþætti rafvæðingar samgangna. Þróun ýmissa inntaksþátta yfir næstu 1-2 áratugi verður skoðuð og sviðsmyndum mismunandi tegunda rafbíla og innleiðingu þeirra hér á landi settar upp.
Styrkur: 2.000.000,- kr.

Gæðaeftirlit og öryggi neysluvatns
Verkefnisstjóri: Sigurður Magnús Garðarsson, prófessor, Háskóli Íslands
Markmið verkefnisins er að auka þekkingu á öryggi neysluvatn með því að draga lærdóm af reynslu
vatnsveitna sem hafa sett upp gæðakerfi og gera leiðbeiningar um hvernig má ná bestum árangri í því.
Styrkur: 2.000.000,- kr.

SÓLEY: Langtímaáhrif loftslagsbreytinga á plöntur og gróður á Íslandi
Verkefnisstjóri: Þóra Ellen Þórhallsdóttir, prófessor, Líffræðistofnun Háskóla Íslands
Markmið SÓLEYJAR verkefnisins er að greina langtímaáhrif loftslagsbreytinga á plöntur og gróður á Íslandi. Með verkefninu fæst aukinn og nýr skilningur á því hvernig umhverfisþættir móta íslenskan gróður.
Styrkur: 1.000.000,- kr.

Birt:
14. maí 2010
Tilvitnun:
Orkuveita Reykjavíkur „UOOR úthlutar 45 milljónum til 30 rannsóknarverkefna“, Náttúran.is: 14. maí 2010 URL: http://nature.is/d/2010/05/14/uoor-uthlutar-45-milljonum-til-30-rannsoknarverkef/ [Skoðað:20. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: