Vottunarstofan Tún ehf hefur staðfest að fyrirtækið Alkemistinn uppfylli kröfur um lífrænar aðferðir við framleiðslu á snyrti- og heilsuvörum og á tejurtum. Vottorð þessa efnis var afhent á Gamlársdag 2009. Alkemistinn er fyrsta fyrirtækið sem hlýtur vottun til lífrænnar framleiðslu í sveitarfélaginu Reykjanesbæ. Hefur slík starfsemi þar með skotið rótum í ríflega þriðja hverju sveitarfélagi landsins.

Með vottun Túns er staðfest að Alkemistinn noti einungis viðurkennd hráefni við framleiðslu á hinum vottuðu vörum, að aðferðir við úrvinnslu og blöndun samræmist reglum um lífræna framleiðslu, og að gæðastjórnun, skráningar og merkingar uppfylli settar kröfur. Alkemistinn er ungt sprotafyrirtæki sem eigandi þess og framkvæmdastjóri, Daniel Coaten, hefur komið haganlega fyrir í hluta byggingar sem áður hþsti vopnageymslu varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli.

Fyrirtækið er því gott dæmi um þá endurmyndun og nýsköpun sem orðið hefur á gamla varnarsvæðinu á Suðurnesjum. Alkemistinn hagný tir vottuð lífræn hráefni til fjölbreyttrar framleiðslu á ýmsum snyrti- og heilsuvörum. Meðal þeirra má nefna jurtaþykkni og jurtaseyði byggð á útdrætti með olíum og vatni, varasalva, ilm- og húðvörur. Þá framleiðir Alkemistinn einnig lífrænar jurtablöndur til tegerðar. Nú þegar framleiðir fyrirtækið 40 vottaðar lífrænar vörutegundir.

Athugið að nánari upplýsingar um aðila með lífræna vottun er að finna hér á vefnum:
Sjá aðila sem hafa lífræna vottun frá Vottunarstofunni Tún hér á Græna Íslandskortinu og einstaka aðila undir „Vottanir og viðmið“ hér á Grænum síðum og undir „Vörur“ á Grænum síðum er auk þess hægt að finna aðila eftir tegund framleiðslu þeirra.

Birt:
7. janúar 2010
Tilvitnun:
Gunnar Á. Gunnarsson „Alkemistinn fær vottun á lífræna framleiðslu snyrti- og heilsuvara“, Náttúran.is: 7. janúar 2010 URL: http://nature.is/d/2010/01/07/alkemistinn-faer-vottun-lifraena-framleioslu-snyrt/ [Skoðað:19. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 19. desember 2010

Skilaboð: