Á föstudaginn var birtist á heimasíðu Landsvirkjunar frétt um nýja stjórnarskipan fyrirtækisins. Þar á meðal var formaður Landverndar Björgólfur Thorsteinsson sem skipaður hefur verið fyrsti varamaður í stjórn Landsvirkjun. Að sögn Björgólfs bar boð um setu í stjórninni brátt að og var tekið með fyrirvara um að sátt væri um það í stjórn Landverndar.

Svart-hvítur raunveruleikinn kristallast í umræðunni sem skotið hefur upp á ýmsum miðlum í kjölfarið. Vegið hefur verið að Björgólfi úr ýmsum áttum og sýnist sitt hverjum. Björgófli hefur verið borinn „blámi“ á brýn og menntamaður við Háskólann á Akureyri hefur farið fram á að Björgólfur segi af sér formannsstöðunni vegna þessa. Á morgun miðvikudag mun stjórn Landverndar funda og taka afstöðu til málsins. Þangað til má benda á að boð um setu í stjórn Landsvirkjunar gæti markað tímamót og boðað meiri samráð við náttúruverndaröflin en verið hefur. Mögulegt er þó að það þurfi meiri hugarfarsbreytingu á báða bóga til að réttlæta setu Björgólfs sem fulltrúa náttúruverndarafla innan stjórnar Landsvirkjunar en möguleg er í dag.

Það ber þó að hafa í huga að bæði í stjórn Landsvirkjunar og Orkuveitu Reykjavíkur hafa setið einstaklingar sem eru einarðir umhverfisverndarsinnar og hafa komið góðu til leiðar með því að vinna innan frá. Það er því mikilvægt að bakari verði ekki hengdur fyrir smið og Björgólfur ekki dæmdur fyrir að sjá náttúruverndaröflum leik á borði eftir áralanga samskiptaörðugleika á milli virkjanarafla annars vegar og náttúruverndarafla hinsvegar. Baráttu sem oft á tíðum hefur átt margt sammerkt með borgarastyrjöld.

Kannski er kominn tími til að báðar fyllkingar virði hvor aðra og vinni saman að sáttaleiðum þegar það á við og þegar það brþtur ekki í bága við annars fastmótaða stefnu Landverndar og annarra náttúruverndarfélaga um sjálfbæra nýtingu og virðingu fyrir náttúrunni.

Myndin er af Björgólfi Thorsteinssyni, formanni Landverndar. Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir.
Birt:
22. apríl 2008
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Að sitja við sama borð, eða ekki“, Náttúran.is: 22. apríl 2008 URL: http://nature.is/d/2008/04/22/ao-sitja-til-sama-boros-eoa-ekki/ [Skoðað:29. mars 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: