Fleiri en 600 börn á aldrinum 8 – 12 ára hafa ræktað sitt eigið grænmeti í Skólagörðum Reykjavíkur í sumar og komið reglulega heim færandi hendi. Uppskeruhátíð verður í görðunum í næstu viku. Hver garður var vel nýttur í sumar.

„Sumarið hefur gengið mjög vel,“ segir Auður Jónsdóttir hjá Skólagörðum Reykjavíkur, „en börnin hafa oft þurft að vökva garðana vegna þess að sumarið hefur verið svo þurrt.“

620 garðar stóðu skólabörnum til boða í sumar og átti það að vera meira en nóg því í fyrra voru ónýttir garðar á flestum stöðum þar sem Skólagarðarnir eru starfræktir. „Ásóknin var svo mikil í sumar að allt fylltist,“ segir Auður.

Skólagarðarnir hefjast í byrjun júní og fær hvert barn úthlutað 18 fm garði, plöntum og fræjum. Þá eru nokkrir grunnskólar með garða og á að nýta uppskeruna í matreiðslukennslu í skólunum í haust. Einnig eru nokkrir leikskólar með garð.

„Börnin hafa í allt sumar verið að tína heim ferskt salat, kálmeti og krydd og ætlunin í næstu viku er að klára verkið og taka upp kartöflur, rófur, blómkál og næpur svo dæmi séu tekin,“ segir Auður og að ánægjulegt sé að sjá hversu duglegir foreldrar eru að koma með börnunum sínum í garðana. Hún er sannfærð um að reynsla barnanna við þessa ræktun verði þeim gott veganesti.

Uppskeruhátíðin verður haldin dagana  17. – 19. ágúst.

Myndin er af Salóme Pálsdóttur sem er með garð í Laugardal. Hún fór í hann í morgun (14.08.09) og náði sér í kál fyrir helgina. Ljósmynd: Umhverfis- og samgöngusvið Reykjavíkur.

 

Birt:
14. ágúst 2009
Höfundur:
Gunnar Hersveinn
Tilvitnun:
Gunnar Hersveinn „Sérhver garður nýttur af skólabörnum í sumar“, Náttúran.is: 14. ágúst 2009 URL: http://nature.is/d/2009/08/14/serhver-garour-nyttur-af-skolabornum-i-sumar/ [Skoðað:19. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: