Michelle Obama forsetafrú Bandaríkjanna hóf matjurtarækt við Hvíta húsið í gær. „Eldhúsgarðurinn“ er staðsettur nálægt gosbrunninum á suðurflötinni.

Nemendur úr Bancroft grunnskólanum frá Columbia hjálpuðu forsetafrúnni með fyrstu handtökin í garðinum og munu halda áfram að taka þátt í sáningu og ræktun í matjurtagarðinum. Á dagskrá er að gróðursetja ávextatré, grænmeti og kryddjurtir á næstu vikum og munu börnin einnig hjálpa til við uppskeruna þegar líður á sumarið. 55 tegundir af lífrænum jurtum verða ræktaðar í garðinum.

Eldhúsgarður í Hvíta húsinu hefur verið draumur Alice Waters þekkts matreiðslumeistara frá Kaliforníu en hún hefur lengi barist fyrir endurlífgun lífrænnar ræktunar og heimavinnslu eða allt frá árinu 1960. Hún hefur m.a. staðið fyrir skólaverkefnum þar sem nemendur rækta eigið grænmeti og ávexti á skólalóðinni og fá þau síðan framreidd í skólaeldhúsinu. Þannig læra börnin betur á hvað matur er í raun og veru og læra að meta annað en ruslfæði.

Alice Waters skipulagði einnig fjölda fjáröflunarkvöldverða fyrir innsetningu Obama í janúar þar sem hún bar fram mat frá bændamarköðum sem selja vörur ræktaðar á býlum í nærliggjandi héruðum. 

Í seinni heimsstyrjöldinn var bandarískur almenningur hvattur til að stunda sjálfþurftar-matjurtarækt en garðarnir gengu þá undir heitinu „sigurgarðar“ (Victory gardens). Sama var upp á tenginginn í Evrópu og muna margir íslendingar eftir þeim tímum þegar allir stunduðu matjurtarrækt í meiri eða minni mæli. Kreppan vestanhafs og austan leiðir okkur nú aftur út í garð og setur forsetafrú Bandaríkjanna hér gott fordæmi til útbreiðslu heimaræktar.

Sjá nánar á: kitchengardeners.org, Telegraph.co.uk, The Huffington Post.

Mynd af Telegraph.co.uk.
Birt:
18. apríl 2009
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Eldhúsgarður Hvíta hússins“, Náttúran.is: 18. apríl 2009 URL: http://nature.is/d/2009/04/18/eldhusgarour-hvita-hussins/ [Skoðað:22. júní 2018]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: