Það virðast einhverjir hafa misst af umræðu gærdagsins um STOPP herferð Umferðarstofu haldin var um land allt með þáttöku ráðamanna og almennings. Þessi vinstrisinni ók t.d. á röngum vegarhelming handan óbrotinnar línu og talsvert yfir hámarkshraða. Framundan eru vegamót og undirritaður hefur iðulega lent í því að ekið er framúr á ofsahraða þegar ég hef ætlað að taka vinstri beygju og gefið tilheyrandi stefnuljós. Á þessum kafla milli Hveragerðis og Selfoss er þetta nánast daglegt brauð og ekki síður í Kömbunum. Þar aka menn gjarnan handan tvöfaldrar línu í beygjur sem nánast eru blindar. Og fyrir kemur að einhver lendir útaf. Illu heilli eru það ekki alltaf ökuníðingarnir sjálfir heldur heiðarlegt fólk sem er að reyna að bjarga sér og fjölskyldu sinni. Ég lít á það sem tilræði við mig og mitt fólk þegar svona er ekið og hika ekki við að tilkynna það til lögreglu. Því miður er fáliðað á Selfossi en þeim tekst nú samt að ná einum og einum. Ég tek undir með Ragnheiði Davíðsdóttur þegar hún krefst hörðustu refsingar fyrir slík brot. Þessir lífsleiðu ökumenn mega spila rússneska rúllettu heima hjá sér en ég frábið mér að hlaupinu sé beint að mér.
Birt:
16. september 2006
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Vinstri umferð að vild“, Náttúran.is: 16. september 2006 URL: http://nature.is/d/2007/03/19/vinstri_umferd/ [Skoðað:25. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 19. mars 2007
breytt: 12. janúar 2008

Skilaboð: