Í morgun áttu sóttvarnalæknir og almannavarnadeild ríkislögreglustjóra fund með fulltrúum stofnana sem gegna lykilhlutverki í viðbúnaðaráætlun vegna inflúensufaraldurs. Á fundinum voru lögð fram drög  að framkvæmd sóttvarna og viðbúnaði í samræmi við viðbragðsáætlun vegna heimsfaraldurs inflúensu. Niðurstaða fundarins var sú að allir aðilar eru vel undirbúnir í samræði við áætlanir sem fyrir liggja.
 
Í gærkvöldi lýsti alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) yfir því að hættustig vegna hugsanlegs heimsfaraldurs inflúensu hafi verið uppfært frá 3. stigi til þess 4. sem samsvarar hættustig almannavarnakerfisins hér á landi.  Hér á landi hefur vinna hafist  samkvæmt hættustigi almannavarna og markmið eru að halda nýjum inflúensustofni innan afmarkaðs svæðis,  seinka útbreiðslu og vinna þannig tíma til að bregðast við.   
Seint í gærkvöld  var fjöldi staðfestra tilfella þessi:
 
3 tilfelli af svínainflúensu á Spáni og Bretlandi
6 tilfelli í Kanada
40 tilfelli í Bandaríkjunum
33 tilfelli í Mexíkó.
Tölurnar benda til þess að útbreiðsla svínainflúensu um heiminn sé umtalsverð. Í Bandaríkjunum þar sem flest tilfelli hafa verið staðfest er um vægan sjúkdóm að ræða. Ekki hafa borist fregnir um að sjúkdómstilvik sem greinst hafa annars staðar en í Mexíkó séu alvarleg. Í ljósi þess hve útbreiðsla inflúensunnar virðist umfangsmikil mælir WHO ekki með ferðatakmörkunum.
 
Hérlendis beinast aðgerðir manna að því á þessu stigi að fylgjast með þeim sem koma til landsins einkum frá Bandaríkjunum og Mexíkó. Þetta þýðir að ef  minnstu einkenna um inflúensu verður vart hjá viðkomandi þá undirgangast þeir læknisrannsókn.  Eins er lögð áhersla á að upplýsa aðila innan heilbrigðisþjónustunnar og  að hægt verði að taka strax sýni og bjóða inflúensusjúklingum upp á meðferð.   Almannavarnadeildin leggur áherslu á að upplýsa sína tengiliði og samhæfa viðbrögð samkvæmt fyrirliggjandi áætlun.   
 
Í landinu eru til inflúensulyf (sem talin eru virk gegn svínainflúensunni) fyrir um þriðjung þjóðarinnar.
 
Samkvæmt upplýsingum frá Sóttvarnastofnun ESB hafa greinst tilfelli á Spáni og á Bretlandi og var staðan þessi seint í gærkvöld. Rétt er að benda á að aðeins 33 tilvik voru staðfest í Mexíkó.
Birt:
28. apríl 2009
Höfundur:
Einar Bergmundur
Tilvitnun:
Einar Bergmundur „Undirbúningur vegna svínaflensu er samkvæmt áætlun“, Náttúran.is: 28. apríl 2009 URL: http://nature.is/d/2009/04/28/undirbuningur-vegna-svinaflensu-er-samkvaemt-aaetl/ [Skoðað:24. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: