Aðalfundur Landverndar, haldinn 3. maí 2008 í Norræna húsinu í Reykjavík, hvetur til bindingar á kolefni í gróðri og jarðvegi en minnir um leið á mikilvægi þess að gæta að líffræðilegri fjölbreytni náttúrulegra vistkerfa í allri áætlanagerð sem snýr að bindingu kolefnis í gróðri, jarðvegi og berggrunni til að minnka styrk gróðurhúsalofttegunda í andrúmslofti.

Greinargerð:
Landgræðsla, skógrækt og endurheimt votlendis eru aðgerðir sem geta skipt verulegu máli við að takmarka styrk gróðurhúsalofttegunda í andrúmslofti en nauðsynlegt er að hafa í huga að þær eru aðeins ein af mörgum leiðum sem nýta þarf í þessari baráttu. Við skipulagningu allra verkefna á þessu sviði þarf jafnframt að hafa í huga að kolefnisbinding er aðeins ein af mörgum afurðum. Mikilvægi virkra vistkerfa felst ekki síst í líffræðilegum fjölbreytileika og víðtækri þjónustu kerfanna í tengslum við fæðu- og viðarframleiðslu og viðhald vatns- og loftgæða. Þau eru búsvæði plantna og dýra, í þeim myndast jarðvegur og þau hafa fagurfræðilegt gildi. Kolefnisbinding í gróðri og jarðvegi verður þannig ávallt aðeins eitt af mörgum markmiðum verkefna á sviði skógræktar og endurheimtar vistkerfa.

Birt:
11. maí 2008
Höfundur:
Landvernd
Uppruni:
Landvernd
Tilvitnun:
Landvernd „Kolefnisbinding og líffræðileg fjölbreytni vistkerfa “, Náttúran.is: 11. maí 2008 URL: http://nature.is/d/2008/05/07/kolefnisbinding-og-liffraeoileg-fjolbreytni-vistke/ [Skoðað:29. mars 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 7. maí 2008
breytt: 11. maí 2008

Skilaboð: