Vinsældir bláu pappírstunnunnar vaxa jafnt og þétt. 1.668 tunnur eru í umferð í borginni og eru um það bil 50 tunnur pantaðar vikulega hjá Sorphirðu Reykjavíkur.

„Tæplega 60 tonn af dagblöðum söfnuðust í marsmánuði í bláu tunnurnar en það er þriðjungur þess magns sem safnast í grenndargámana,“ segir Guðmundur B. Friðriksson hjá skrifstofu Neyslu- og úrgangs á Umhverfis- og samgöngusviði, í fréttatilkynningu.

Magn dagblaða sem safnast á grenndargámana hefur ekki minnkað að ráði þrátt fyrir bláu tunnuna.

„Við náum greinilega til ný s hóps sem vill flokka pappír og annað sorp,” segir Guðmundur og að þar sem Reykvíkingar séu um þessar mundir 119 þúsund megi segja að hálft kg af dagblöðum hafi safnast í bláar tunnur á hvern íbúa í marsmánuði. „Ef gert er ráð fyrir 55 þúsund íbúðum í Reykjavík þá er hér um að ræða 1 kíló á hverja íbúð.”

Viðskiptavinir Sorphirðunnar virðast ánægðir með veitta þjónustu vegna bláu tunnunnar, að mati Guðmundur og nefnir hann því til stuðnings tölvuskeyti sem barst nýlega frá einum þeirra:

„Í gærkvöldi klukkan 21:11 sendi ég tölvuskeyti til þess að panta bláa tunnu fyrir dagblöð og annan pappír. Klukkan 09:15 í morgun var tunnunni rúllað inn stíginn hjá okkur og stillt upp bak við hús. Viðbragðstími: 12:04! Ætli það gerist betra á öðrum bæjum!“

Bláa tunnan - sjá nánar um bláu tunnuna.

Birt:
7. maí 2008
Tilvitnun:
Viðar Þorsteinsson „Æ fleiri velja bláar tunnur“, Náttúran.is: 7. maí 2008 URL: http://nature.is/d/2008/05/07/ae-fleiri-velja-blaar-tunnur/ [Skoðað:18. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: