Milljarður á mánuði í gjaldeyri myndi sparast með því að nota innlenda orku á bílaflotann
Bílaframleiðendur, orkufyrirtæki og fulltrúar nágrannalanda ræða orkulausnir í Reykjavík

Íslendingar gætu sparað rúmlega einn milljarð króna í gjaldeyri í hverjum mánuði með því að hætta að nota olíu og bensín á bílaflotann og skipta yfir í innlenda orkugjafa svo sem rafmagn og metan. Hópur alþjóðlegra sérfræðinga fundar í Reykjavík á mánudag til að fjalla um hvernig framkvæma megi slíka kerfisbreytingu. Ísland þykir mjög spennandi vettvangur fyrir slíkar lausnir vegna þeirrar sérstöðu að landið hefur þegar farið í gegnum kerfisbreytingu í orkumálum þegar skipt var úr kolum og olíu í jarðvarma til húshitunar. Í þessu samhengi má spyrja hvar þjóðin væri stödd ef við notuðum enn innflutta olíu og kol til húshitunar?

Málið er einfalt: 200 þúsund fólksbílar sem keyra 15,000 km á ári blása út 600.000 tonnum af CO2, og nota 250 þúsund lítra af olíu. Eldsneytiskostnaður hleypur upp og niður en verðið fyrir tonn af bensíni hefur verið í kringum 500 Bandaríkjadali, eða samtals 98 milljónir Bandaríkjadala fyrir íslenska bílaflotann. Það gerir um 12,7 milljarða króna á ári á gengi dagsins í dag. Því mætti spara að minnsta kosti einn milljarð króna af gjaldeyri í hverjum mánuði með kerfisbreytingu yfir í innlenda orku fyrir samgöngur.*

Ísland án innfluttrar orku á bílana er raunhæft takmark á næstu tíu til tuttugu árum. Metanbílar eru til í mörgum útgáfum í dag, þeir eru um tuttugu prósent ódýrari í innkaupum en sambærilegir bensín og díselbílar og eldsneytiskostnaður þeirra er allt að helmingi minni. Á ruslahaugum í Álfsnesi framleiðir Metan hf metangas sem nægir til að knýja um það bil fjögur þúsund bíla árlega og miklir möguleikar eru á að auka framleiðsluna víða um land. Aðeins rúmlega eitthundrað slíkir bílar eru á götunum.

Allir helstu bílaframleiðendur heims boða nú rafbíla af mismunandi tegundum í á almennan markað frá árunum 2010-2012. Stærstu kostir rafbíla eru mun minni rekstrarkostnaður og enginn útblástur. Ljóst er að fyrstu rafbílarnir verða mun dýrari en sambærilegir bensínbílar. Líklegt má þó telja að framleiðslukostnaður muni lækka hratt með frekari fjöldaframleiðslu og þróun, auk þess sem að um þessar mundir spretta upp fjölmörg fyrirtæki sem bjóða niðurgreiðslu á rafbílum ef eigendur þeirra skuldbinda sig til að kaupa raforku til að knýja þá á lægra verði en sem nemur bensínkostnaði.

Fimmtán sérfræðingar frá stærstu og athyglisverðustu bílaframleiðendum heims, framsæknustu orkufyrirtækjum og rafhlöðuframleiðendum veraldar, háskólum og nágrannaborgum og löndum mynda kraftmikinn hóp ræðumanna sem hittist á Driving Sustainability ráðstefnunni sem fyrirtækið Framtíðarorka stendur nú fyrir þriðja árið í röð. Þeir munu veita innsýn í stefnumótun og hagkvæmustu tæknilausnirnar í grænum samgöngum sem eru í boði í dag og verða það á allra næstu árum. Nú þegar eru skráðir um 150 þátttakendur frá 25 löndum þar á meðal öllum Norðurlöndum, fjölmörgum Evrópulöndum, Bandaríkjunum, Japan, Kína og víðar.

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands setur Driving Sustainability ráðstefnuna um sjálfbærar orkulausnir í samgöngum mánudaginn 14 september næstkomandi en henni lýkur á þriðjudag. Gestgjafar ráðstefnunnar eru Norræna Ráðherranefndin og Reykjavíkurborg. Bakhjarlar hennar eru Mitsubishi í Japan, N1, Orkuveita Reykjavíkur, Metan, Orkustofnun, Toyota, Sænska Sendiráðið á Íslandi, Iðnaðarráðuneytið, Utanríkisráðuneytið og Umhverfisráðuneytið auk Háskóla Íslands og Háskólans í Reykjavík.

Forsvarsmenn Framtíðarorku eru sannfærðir um að aukin notkun innlendrar orku í samgöngum sé lykilþáttur í endurreisn Íslands.

Sjá meira á driving.is.

Mynd: Ólafur Ragnar Grímsson í ræðustól á Driving Sustainability 2008. Ljósmynd: Einar Bergmundur.

Birt:
9. september 2009
Höfundur:
Teitur Þorkelsson
Tilvitnun:
Teitur Þorkelsson „Fimm dagar í Driving Sustainability“, Náttúran.is: 9. september 2009 URL: http://nature.is/d/2009/09/09/fimm-dagar-i-driving-sustainability/ [Skoðað:18. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: