Norðurlöndin munu styrkja stöðu sína sem brautryðjendur á sviði umhverfistækni. Þetta ítrekuðu norrænu umhverfisráðherrarnir á fundi sínum í Svartsengi sem lauk í dag. Íslendingar fara með formennsku í Norrænu ráðherranefndinni í ár og því var Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra gestgjafi fundarins.

Samkvæmt yfirlýsingu fundarins munu Norðurlöndin styrkja stöðu sína sem brautryðjendur á sviði umhverfistækni. Mikil þörf er á tækni til að draga úr gróðurhúsaáhrifum samhliða alþjóðlegri efnahagsýróun sem miðar að því að draga úr losun koltvísýrings. Umhverfisráðherrarnir sögðu þörf á fjárfestingum sem geta haft langtímaáhrif ef takast ætti að komast úr núverandi efnahagskreppu. Þess vegna eigi að stuðla að grænum hagvexti. Loftslagið mun batna samhliða því að umhverfisvæn verkefni skapa bæði hagvöxt og störf.

Norðurlönd eru brautryðjendur á mörgum sviðum. Meira en 60 prósent af þeirri orku sem Norðurlandabúar nýta er framleidd úr endurnýjanlegum orkugjöfum. Enn eru þó ónýtt tækifæri í rannsóknum og nýsköpun á sviði umhverfistækni.

Á fundinum fluttu þeir Þorsteinn Ingi Sigfússon, forstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar, Jón Ágúst Þorsteinsson, forstjói Marorku og Andri Ottesen, framkvæmdastjóri Carbon Recycling International, erindi um íslenska nýsköpun og vistvæna tækni.

Frétt á heimasíðu Norðurlandaráðs.
Birt:
26. maí 2009
Tilvitnun:
Guðmundur Hörður Guðmundsson „Norðurlönd brautryðjendur í umhverfistækni“, Náttúran.is: 26. maí 2009 URL: http://nature.is/d/2009/05/26/norourlond-brautryojendur-i-umhverfistaekni/ [Skoðað:28. mars 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: