Ýmsir velta því fyrir sér þessa dagana hvaða áhrif yfirstandandi bankakreppa hafi á framgang umhverfismála. Í þessu sambandi vaknar m.a. sú spurning hvort umhverfismálin hljóti ekki að verða útundan við núverandi aðstæður, einfaldlega vegna þess að nota þurfi peningana í annað mikilvægara.

Ekkert einhlítt svar
Í þessu máli gildir það sama og annars staðar, að hér er ekki til neitt einhlítt svar. Vissulega má færa fyrir því ýmis rök að umhverfismálin verði útundan þegar svona stendur á. Þannig hefur Barack Obama, forsetaframbjóðandi bandaríska Demókrataflokksins, t.d. sagt að hann gæti neyðst til að draga úr fyrirhuguðum framlögum til þróunar á endurnýjanlegum orkugjöfum til að geta staðið við 700 milljarða dollara loforðið sem þingið samþykkti um daginn til að bjarga fjármálamarkaðnum. Sömuleiðis verður augljóslega erfiðara en fyrr að útvega lánsfé til úrbóta í umhverfismálum. Hér heima hafa líka heyrst háværar raddir um að nú dugi ekkert umhverfiskjaftæði, því að nú hafi menn einfaldlega ekki efni á að taka tillit til umhverfisins. Í þessu sambandi hefur meira að segja verið rætt um að afnema lögin um mat á umhverfisáhrifum framkvæmda, því að þau tefji bara fyrir uppbyggingarstarfinu. Hins vegar hafa margir bent á að ekki sé hægt að byggja upp heilbrigt hagkerfi án þess að umhverfismál séu þar í brennidepli. Hagkerfi heimsins muni einfaldlega standa og falla með vistkerfunum. Þess vegna feli bankakreppan í raun í sér tækifæri fyrir mannkynið til að staldra við og hugsa hvernig hægt sé að komast áfallalítið inn í framtíðina. Sú vegferð verði að byggja á skilningi á samhengi hagfræðinnar og vistfræðinnar.

Skammtímaáherslur duga ekki
Í alþjóðlegri umræðu um umhverfismál á tímum bankakreppu, hafa margir lýst þeirri skoðun sinni, að áhersla á umhverfið verði einmitt kjarninn í því uppbyggingarstarfi sem er óhjákvæmilega framundan. Bankakreppan hafi nefnilega sýnt mönnum fram á það með harkalegum hætti, að skammtímaáherslur séu beinlínis skaðlegar í efnahagslegu tilliti. Það voru jú einmitt slíkar skammtímaáherslur í formi undirmálslána sem hrintu skriðunni af stað. Það hefur með öðrum orðum sannast, að skammtímaáætlanir duga hvorki á Wall Street né í umhverfismálum. Yfirstandandi lausafjárkreppa hefur leitt í ljós gríðarlegan ófullkomleika þess hagkerfis sem einblínir á skammtímagróða, en horfir framhjá mikilvægi þess að styrkja hag hluthafa til lengri tíma litið um leið og hugað er að verndun náttúruauðlinda. Á það hefur verið bent, að einmitt núna hafi ríkisstjórnir og forkólfar í atvinnulífi einstakt tækifæri til að læra af atburðunum á Wall Street – og að sá lærdómur muni svo sannarlega nýtast til að fást við loftslagsvandann, stærsta vanda sem mannkynið hafi nokkru sinni staðið frammi fyrir.

Umhverfisvænni lán og fjárfestingar
Núverandi ástand hlýtur óhjákvæmilega að leiða til þess að þær fjármálastofnanir sem á annað borð lifa af, leitist við að draga úr áhættu í ákvörðunum sínum í náinni framtíð. Reyndar eru þegar uppi vísbendingar um þetta. Þannig hafa stofnanir á borð við Morgan Stanley, Citi og JP Morgan Chase tilkynnt að hér eftir verði farið mun nánar í saumana á umhverfislegri áhættu áður en veitt eru lán til stórra framkvæmda sem leiða til aukinnar losunar gróðurhúsalofttegunda. Bank of America, Wells Fargo og Credit Suiesse hafa einnig tilkynnt um svipaðar áherslubreytingar. Þannig hefur Bank of America sett sér tiltekin markmið til að draga úr neikvæðum loftslagsáhrifum af lánveitingum bankans. Þar verður hér eftir reiknað með 20-40 dollara aukakostnaði fyrir hvert tonn af kolefni, sem ætlað er að væntanlegir lántakendur losi. Þannig hefur væntanleg umhverfisleg frammistaða lántakenda bein áhrif á möguleika þeirra til fjármögnunar. Á sama hátt bendir flest til þess að fjárfestar muni nú flytja fé sitt í miklum mæli til fyrirtækja sem vinna að þróun nýrra orkugjafa, enda þykja þau líkleg til að skila mjög góðri ávöxtun til lengri tíma litið. Margir fjárfestar munu taka undir með þeim sem segjast „frekar vilja sitja við borðið en að vera á matseðlinum“, eins og einhver orðaði það.

Hvers virði er náttúran?
Þessa dagana heyrast ógnvænlegar tölur í krónum og dollurum yfir fjármunina sem hafa tapast í hinu eða þessu bankahruninu. Tilfellið er þó að stór hluti af innstæðunum er hvergi færður til bókar. Þar er átt við höfuðstól náttúrunnar. Öll sú þjónusta sem vistkerfi jarðar veita okkur, án þess að þiggja peninga fyrir, er arðurinn af þessum innstæðum. Þegar hinar peningalegu innstæður tapast, hljóta sjónir okkar að beinast að þeim þáttum sem vantar í bókhaldið. Robert Costanza, prófessor við Háskólann í Vermont, er sá maður sem hvað mest hefur velt fyrir sér þeim fjárhagslegu verðmætum sem felast í þjónustu vistkerfanna. Fyrir svo sem 10 árum setti hann fram útreikninga, sem bentu til að verðmæti þessarar þjónustu væri nær tvöfalt hærra en samanlögð þjóðarframleiðsla allra þjóða, eins og hún er venjulega mæld. Costanza hefur sagt að nú sé þörf á að skrifa hagfræðina upp á nýtt og að bankakreppan feli í sér tækifæri til þess. Achim Steiner, framkvæmdastjóri Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNEP), hefur tekið í sama streng og sagt að líklega muni 21. öldin einkennast af umræðu um hinn náttúrulega höfuðstól, á sama hátt og 20. öldin einkenndist af umræðu um hinn fjárhagslega höfuðstól. Margir halda því fram að útilokað sé að setja verðmiða á þjónustu náttúrunnar, en Achim Steiner hefur á móti bent á, að menn séu heldur ekkert allt of flinkir að meta raunverulegt verðmæti á mörkuðum heimsins, eins og sjáist m.a. á því að olíuverð er nú aðeins helmingur af því sem það var í júlí sl.

Stærsta umhverfistækifæri allra tíma?
Bill Valentine, stjórnarformaður arkitektastofunnar HOK, sem er ein þeirra stærstu í heiminum sem fæst við sjálfbæra hönnun, sagði á dögunum að núverandi ástand fæli í sér stærstu umhverfistækifæri allra tíma. Annað hvort myndi menn grípa þetta tækifæri til að taka stökk í átt að sjálfbærri þróun, eða að baráttan myndi hreinlega tapast. Staðan væri reyndar þannig að menn hefðu einfaldlega ekki efni á öðru en að taka áherslur sjálfbærrar þróunar inn í hönnun mannvirkja. Bankakreppan og verðlag á orku og hráefnum myndu einfaldlega reka menn í þessa átt. Jafnvel í olíuauðugum Arabaríkjum væri sprottinn upp gríðarlegur áhugi á sjálfbærri hönnun. Þar á bæ sæju menn einfaldlega að slíkar áherslur væru algjörlega nauðsynlegar til að búa í haginn fyrir framtíðina, auk þess sem þeim væri annt um eigin ímynd.

Sjá alla greinina á bloggsíðu Stefáns Gíslasonar „Sjálfbært blogg“.

Myndin er af Hrafnabjargarfossi. Ljósmynd: Ragnhildur Sigurðardóttir.

Birt:
4. nóvember 2008
Höfundur:
Stefán Gíslason
Tilvitnun:
Stefán Gíslason „Stefán Gíslason um „tækifærin“ í stöðunni“, Náttúran.is: 4. nóvember 2008 URL: http://nature.is/d/2008/11/04/stefan-gislason-um-taekifaerin-i-stoounni/ [Skoðað:20. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: