Fréttablaðið birti í dag á forsíðu sinni í stóru letri „Fokið í flest skjól ef við virkjum ekki“. Þetta var haft eftir Ólafi Áka Ragnarssyni sveitarstjóra Ölfuss.
Sveitarstjórinn segir að neikvæð afstaða Hvergerðinga til Bitruvirkjunar hafi ekki úrslitaáhrif um hvort að af virkjunum í Henglinum verði eður ei og rafmagnið hafi þegar verið eyrnamerkt álveri í Helguvík og því verði að virkja. Ólafur Áki heldur áfram með stórar yfirlýsingar og staðhæfir að áframhaldandi líf í landinu velti á því hvort að virkjað verði og álverum fjölgi eða ekki.

Eins og kunnugt er hefur Skipulags- og byggingarnefnd Hveragerðisbæjar alfarið lagst gegn framkvæmdinni og telur hana hafa afar skaðleg áhrif á möguleika bæjarins sem íbúðar- og ferðamannasvæðis. Hátt á sjöhundruð athugasemdir um umhverfismat Bitru- og Hverahlíðarvirkjunar höfðu borist Skipulagsstofnun seinnipartinn í dag. Svæðið er á náttúruminjaskrá!

Ólafur Áki klingir út með því að benda á að það skipti svo sem heldur ekki nokkuru máli hvað Skipulagsstofnun álykti og nefnir sem dæmi hvernig sveitarstjórn Ölfuss gaf leyfi til áframhaldandi og stóraukinnar efnistöku úr Ingólfsfjalli í hitteðfyrra, í fullkomnu trássi við álit Skipulagsstofnunar.

Myndin er af ráðhúsi Ölfuss. Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir.
Birt:
9. nóvember 2007
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Yfilýsingaglaður sveitarstjóri í Ölfusi“, Náttúran.is: 9. nóvember 2007 URL: http://nature.is/d/2007/11/09/yfilsingaglaur-sveitarstjri-lfusi/ [Skoðað:29. mars 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: