Upplýsingar um jarðfræði sem komu fram í umhverfismati vegna Núpsvirkjunar og Urriðafossvirkjunar árið 2003 voru mjög takmarkaðar og alls ófullnægjandi. Þetta segir Ingibjörg Elsa Björnsdóttir, jarðfræðingur eftir að hafa skoðað málið ný verið. Jarðfræði svæðisins er afskaplega flókin, svæðið er alltsaman sundursprungið, þar eru flekaskil og ofan í þessa flóknu sprungur kemur megineldstöð með ummyndun og jarðhita.

Í ljósi þessa telur Ingibjörg það vera ámælisvert að jarðfræðiskýrslan sem lögð var fram með umhverfismati var einungis 10 bls., þar af 4 bls. Kort og 1 bls. forsíða þannig að sjálfur textinn er aðeins 5 bls.

Jarðfræðiskýrslan sem er góð eins langt og hún nær segir einungis að jarðfræði svæðisins sé afskaplega flókin og að rannsaka þurfi hana betur. Frá því að umhverfismati lauk árið 2003 hafa verið gerðar umfangsmiklar jarðfræðirannsóknir á Þjórsársvæðinu. Þær rannsóknir hafa þó ekki verið lagðar fram fyrir almenningssjónir nema að litlu leyti. Þannig hefði verið nauðsynlegt að miklu ítarlegri upplýsingar um jarðfræði hefðu legið fyrir í umhverfismati, þar sem ljóst er að svæðið er hættulegt jarðfræðilega, og þar verða skjálftaupptök ýmissa stórra skjálfta. Jarðfræðingar hafa af því vissar áhyggjur að þótt stíflurnar haldi, kunni uppistöðulónin að leka t.d. í jarðskjálftum.

Myndin er samsett af korti Landsvirkjunar af ÞJórsárvirkunum annars vegar og sprungukorti Páls Einarssonar af svæðinu hins vegar.
Birt:
13. júlí 2007
Tilvitnun:
Ingibjörg Elsa Björnsdóttir „Ófullnægjandi upplýsingar í umhverfismati Núpsvirkjunar“, Náttúran.is: 13. júlí 2007 URL: http://nature.is/d/2007/07/13/fullngjandi-upplsingar-umhverfismati-npsvirkjunar/ [Skoðað:20. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 16. júlí 2007

Skilaboð: