Frumvarp Össurar Skarphéðinssonar um heimild til samninga um álver í Helguvík var samþykkt á Alþingi í dag og féllu atkvæði svo: 38 já, 9 nei, 1 greiddu ekki atkv., 15 fjarstaddir. Það voru þingmenn VG ásamt Merði Árnasyni (S) sem greiddu atkvæði gegn frumvarpinu. Þórunn Sveinbjarnardóttir sat hjá. En aðrir viðstaddir þingmenn greiddu atkvæði með frumvarpinu. Á síðustu dögum þingsins var tekist á um önnur og mun mikilvægari mál á þessum tímum. S.s. hið svonefnda Stjórnarskrárfrumvarp sem átti að tryggja þjóðinni eignarrétt á auðlindum eins og fiskistofnum, orku og óspilltri náttúru. Þingið hefði getað farið fyrr heim og í kosnignabaráttu ef þessu frumvarpi hefði verið frestað til næsta þings. Century Aluminium getur varla legið mikið á þegar þeir eru að loka álverum sínum í öðrum löndum og berjast við bága fjárhagsstöðu móðurfélagsins um þessar mundir. Það má varla teljast vænlegt fyrir íslenska ríkið að gangast í ábyrgðir fyrir þá núna. Skuldugt upp fyrir haus. 

Þetta frumvarp særir marga umhverfissinna hjartasári. Þá sem trúðu á Fagra Íslands áróður Samfylkingar fyrir síðustu kosningar. Nú er ljóst að flestir þingmenn Samfylkingar telja landið fagurt virkjað í bak og fyrir með álver í hverri vík. Það er engin ástæða til að ætla að sú stefna breytist á næstu dögum eða árum. 

Þenslan sem síðustu framkvæmdir af þessum toga olli fór illa með land og þjóð. Marigr leikir og lærðir sögðu fyrir um harða lendingu en það var hlegið að þeim og reynt að gera þá kjánalega. Vonandi er tími slíkrar strákaparapólítíkur liðinn. Það ber því að skoða allar framkvæmdir mjög vel áður en þær eru hafnar. 

Störf í álverum eru meðal dýrustu starfa sem um getur. 150 til 300 miljónir á starf. Það væru mörg sprotafyrirtæki ánægð að fá ekki nema tíund af því í tannfé. 

Auk þess má telja að þessi samningur Össurar standist ekki reglur EES og hvað þá ES og gæti valdið vandræðum í viðræðum þeim sem fyrirhugaðar eru um inngöngu Íslands.

Vonandi verður hægt að hefja málefnalega umræðu um þessi mál að loknum kosningum þegar örvænting og varkárni stjórnmálamanna verður minni en þessa dagana.

Birt:
17. apríl 2009
Höfundur:
Einar Bergmundur
Uppruni:
Einar Bergmundur
Tilvitnun:
Einar Bergmundur „Fagra Álland“, Náttúran.is: 17. apríl 2009 URL: http://nature.is/d/2009/04/17/fagra_alland/ [Skoðað:19. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: