„Kolefnisjöfnun“ er sérstakt hugtak sem spratt upp nýlega, í magni, sem virkar næstum óhóflegt í áfergjunni. Allt í einu er ekkert mál að „verða grænn“ því hægt er að kaupa sér syndaaflausn með því að „kvitta fyrir kolefnð“ eða „kolefnisjafna“ sig eða starfsemi sína. Auðvitað er verkefnið Kolviður góðra gjalda vert, stórt verkefni sem styður skógrægt, safnar fé og veitir fé til skógræktar, sem eftir X ár skilar sér í því að skógurinn bindur koltvísýring. Gallinn er bara sá að það gerist ekki strax, ekki nærri strax, og á meðan höldum við áfram að spúa koltvísýring út í andrúmsloftið. Hugmyndin er því góð en alls ekki endanleg lausn og getur jafnvel verið stórhættuleg þ.e. ef að fólk og fyritæki halda að það nægi að borga syndaaflausnina og halda áfram að taka lítið sem ekkert tillit til umhverfisins í daglegu lífi og neysluvenjum.

Þeir sem græða mest á Kolvið eru án efa þeir miðlar sem að verkefnið er auglýst í og þau stórfyrirtæki sem taka þátt og geta þannig auglýst að þau séu „græn“. Ímyndarsköpun fyrirtækja byggir að hluta til á umhverfismeðvitund þeirra og „að kvitta fyrir kolefnið“ er einföld lausn til að verða „græn“ í augum almennings, enda ekki til vottunarferli fyrir það hugtak sem slíkt.

Umhverfið græðir án efa á verkefninu til lengri tíma litið. Það er að segja ef Hekluskógar halda (ef Hekla gýs ekki þeim mun gróflegar áður en litlu trjáplönturnar komast á legg) en þá má gera ráð fyrir að kolefnisjöfnun muni eiga sér stað eins og reiknað hefur verið út. Spurningin er bara hvort að það verði ekki orðið allt of seint og „hreina samviskan“ hafi mörgum árum áður orsakað meiri umhverfisspjöll en sú óhreina hefði annars gert.

Það er því gríðarlega mikilvægt að láta ekki þar við sitja heldur vinna að því á öllum vígstöðvum að umhverfisvitund sé fyrsta boðorð hvers fyrirtækis, hverrar fjölskyldu og hvers einstaklings. Ekki bara með því að kvitta fyrir kolefnið heldur með því að minnka kolefnislosun.

Grafík: Guðrún Tryggvadóttir og Signý Kolbeinsdóttir. ©Náttúran.is

Birt:
19. maí 2007
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Er allt vænt sem vel er grænt?“, Náttúran.is: 19. maí 2007 URL: http://nature.is/d/2007/05/19/er-allt-vnt-sem-vel-er-auglst-grnt/ [Skoðað:19. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 22. maí 2007

Skilaboð: