Hvað geta Íslendingar gert í baráttu gegn loftslagsvá? Og hvað eigum við að gera? Þarf að kollvarpa hagkerfi og atvinnulífi – eða getum við beðið róleg uppi í sófa eftir að einhverjir aðrir hætti að sóða út andrúmsloftið? Brynhildur Davíðsdóttir visthagfræðingur er framsögumaður hjá laugardagsfundi Græna netsins um viðbrögð Íslendinga við loftslagsvánni en hún er formaður sérfræðinganefndar á vegum stjórnvalda um viðbrögð við loftslagsbreytingum.

Sú nefnd á að skila af sér í apríl og tekur þá væntanlega við pólitísk stefnumótun þar sem hagsmunir og hugsjónir leikast á við að finna íslensku leiðina til þeirrar framtíðar sem við blasir: Kolefnisgjald? Mengunarkvótar? Himinhá sorpgjöld? Hjólreiðastyrkir? – Hver eru hin pólitísku verkefni fyrir grænan flokk einsog Samfylkingin vill vera? Hver verða áhrifin á daglegt líf okkar?

Fundur Græna netsins verður haldinn á Bókakaffinu Glætunni, Aðalstræti 9 (við kirkjugarðinn elsta þar sem Frjálslyndi flokkurinn hafði skrifstofur) á laugardaginn og hefst klukkan 11.

Brynhildur Davíðsdóttir, formaður sérfræðinganefndar, er visthagfræðingur og dósent við viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands, sér þar meðal annars um í meistaranám í umhverfis- og auðlindafræðum. Hún las fyrst líffræði en síðan lá leiðin í hagfræði og alþjóðastjórnmál í Bostonháskóla þar sem hún skrifaði doktorsritgerð um kolefnislosun og önnur umhverfisáhrif frá pappírsiðnaði í Bandaríkjunum.

Loftslagsfundur Græna netsins á laugardaginn klukkan 11:00 er öllum opinn.
Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir
Birt:
17. janúar 2008
Höfundur:
Græna netið
Tilvitnun:
Græna netið „Loftslagsvá - hvað geta Íslendingar gert?“, Náttúran.is: 17. janúar 2008 URL: http://nature.is/d/2008/01/17/loftslagsva-hvao-geta-islendingar-gert/ [Skoðað:29. mars 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: